„Þá liggur það fyrir. Við munum rjúfa þing 28. október og senda boltann til kjósenda,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann ávarpaði fulltrúa fjölmiðla á Bessastöðum eftir fund sinn með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í dag.
Bjarni hafði komið til Bessastaða til þess að fá samþykkta tillögu um að þing yrði rofið og að gengið yrði til kosninga 28. október næstkomandi. Guðni varð við þeirri tillögu, eins og kom fram á Kjarnanum.
Bjarni sagðist hafa lagt áherslu á að brugðist yrði hratt við þeim aðstæðum sem urðu eftir að Björt framtíð sagði sig frá stjórnarsamstarfinu aðfaranótt föstudagsins 15. september. Það hafi verið mikilvægt til þess að koma aftur á skipulagi.
Hann tók undir orð forseta Íslanda um að það væri mikilvægt að endurnýja traust og festu í íslenskum stjórnmálum. Sú staða sem upp væri komin væri „beinlínis framhald af þeirri stöðu sem við vorum í eftir kosningarnar í fyrra“. Eins og kunnugt er gekk mjög erfiðlega að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar í október 2016. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók þess vegna ekki við fyrr en 11. janúar 2017.
Brestir í smáflokkakerfinu
Spurður um það hvort hann hafi borið ábyrgð á því að svona fór, verandi forsætisráðherra í ríkisstjórn, sagði Bjarni að upp hafi komið aðstæður sem hann réð ekki við. „Brestir í smáflokkakerfinu“ hafi valdið því að Björt framtíð sagði sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu.
„Veikleiki stjórnarinnar var kannski með [ríkisstjórninni] frá upphafi á vissan hátt. Það voru erfiðleikar frá upphafi frá síðustu kosningum.“
„Með því að segja sig frá stjórnarsamstarfinu verður ákveðið upplausnarástand sem ég réð ekki við,“ sagði Bjarni. Björt framtíð hafi litið þetta mál öðrum augum en Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn. Það hafi hins vegar ekki orðið til þess að Bjarni hafi ekki faðmað ráðherra Bjartar framtíðar, þau Óttarr Proppé og Björtu Ólafsdóttur, að skilnaði. „Lífið heldur áfram,“ sagði Bjarni um það.
Vill bara tveggja flokka stjórn
Bjarni ræddi svo hvaða stjórnarmynstur hann myndi vilja sjá eftir kosningarnar, sem hann vonar að muni veita stjórnmálaflokkum sterkara umboð til þess að mynda ríkisstjórnir.
„Ég sagði það opinberlega að þriggja flokka stjórnir hafi aldrei haldið út heilt kjörtímabil,“ sagði Bjarni og rifjaði upp orð sín eftir kosningarnar í fyrra. Hann hafi hins vegar litið á það sem skyldu sína að reyna að mynda starfhæfa ríkisstjórn í erfiðu ástandi.
„Ég held að enginn formaður Sjálfstæðisflokksins hefði látið sér detta það í hug að láta Vinstri græna fá lyklana að fjármálaráðuneytinu. Það gerði ég,“ sagði Bjarni til þess að útskýra hversu alvarlega hann hafi sinnt skyldu sinni.
Bjarna hugnast ekki að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi þriggja flokka á ný. Ríkisstjórnarsamstarf tveggja sterkra flokka sé mun vænlegra til farsældar en annað. Hann segist þess vegna ætla að kappkosta við að mynda slíka stjórn ef það verður hægt eftir kosningar.
Landsfundur eftir kosningar
Áætlað er að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins fyrstu helgina í nóvember, þe. eftir kosningar. Miðstjórn flokksins á hins vegar eftir að koma saman og leggjast yfir hvort hægt verði að halda landsfund fyrir kosningar.
Bjarni telur það ólíklegt að hægt verði að breyta dagsetningu landsfundarins með svo skömmum fyrirvara. Hann viðurkennir þó að sú ákvörðun sé ekki hans.
Á landfundi Sjálfstæðisflokksins er forysta flokksins valin. Bjarni hefur verið formaður flokksins síðan árið 2009. Sem stendur er enginn varaformaður í Sjálfstæðisflokknum, en Ólöf Nordal gengdi því embætti. Hún lést í febrúar á þessu ári.