Engin eiginleg niðurstaða varð á fundi formanna stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi síðdegis í dag. Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, boðaði til fundarins til þess að ræða áframhaldandi þingstörf eftir að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur samþykkt tillögur um þingrof.
Á fundinum ræddu formennirnir um þau mál sem þingið ætti að taka til umfjöllunar á þeim sex vikum sem eru til stefnu áður en nýtt þing verður kjörið. Úr varð að nokkur mál verða sett í ferli. Formennirnir ætla svo að hittast á morgun og hinn og ræða saman frekar.
Ekki eru allir á eitt sáttir um að þing eigi að starfa þar til kosningar fara fram, um það voru höfð orðaskipti á fundinum. Skilningur ríkir milli allra formanna flokkanna að fjárlögin verði ekki til umfjöllunar fyrir kosningar. Þau verði að vinna eins og í fyrra, í nóvember og desember.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að nú sé málum þannig fyrir komið að það þarf að ríkja einhugur um þau málefni sem þarf að taka á dagskrá.
Meðal þeirra mála sem ákveðið var að setja í ferli voru málefni hælisleitenda og flóttamanna, þe. útlendingalögin. Meirihluti fundarmanna var, að sögn Loga, á þeirri skoðun að búa ætti til miklar endurbætur á útlendingalögunum.
Þá var tekin ákvörðun um að þingflokksformenn skoðuðu frumvarp Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um að komið verði í veg fyrir að menn sem framið hafa ákveðin lögbrot geti starfað sem lögmenn.
Forseta þingsins var jafnframt falið að lesa yfir frumvarp um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA-úrræðið svokallaða. Í samtali við mbl.is sagði Unnur Brá að þau mál sem formennirnir hafi getað sammælst um að skoða frekar séu komin í farveg. „[...]þegar þeirri athugun er lokið hittumst við að nýju á miðvikudaginn og reynum að átta okkur á því hvernig við getum haldið áfram.“
Bjarni Benediktsson tilkynnti um þingrofið á stuttum þingfundi í dag og þannig hefur verið formlega boðað til kosninga og þing rofið 28. október 2017.