„Hérna er skjalið sem ég vonast til að tryggi að við komum aftur röð og reglu á stjórnmálin með hjálp kjósenda,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, þegar fjölmiðlamenn spurðu hvað væri í möppunni sem hann kom með á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.
Það kom svo í ljós sem allir vissu: Forsætisráðherra óskaði eftir því að forsetinn myndi samþykkja þingrof, sem Guðni samþykkti.
Fundur Guðna og Bjarna tók aðeins tæpar fimmtán mínútur og að honum loknum ávarpaði Guðni fulltrúa fjölmiðla. Guðni sagðist þar hafa fallist á tillögu forsætisráðherra að þing verði rofið og gengið til kosninga 28. október. Frá þessum degi mega þess vegna aðeins líða 45 dagar þar til kosið verður.
Guðni sagðist hafa kannað möguleikana á því hvort hægt væri að mynda nýja ríkisstjórn á því þingi sem nú starfar. Eftir samtöl við formenn flokkana sem eiga sæti á Alþingi á laugardag var ljóst að ekki yrði reynt að mynda nýja ríkisstjórn. Guðni taldi það hafa verið skyldu sína áður en hann féllst á tillögu um þingrof.
„Þing verður ekki rofið fyrr en á kjördegi,“ benti forsetinn á. Alþingismenn hafa þess vegna enn þingskyldum að gegna fram að kosningum. Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, fundar með formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi eftir hádegi. Þar verður ákveðið hvernig þingstörfum verður háttað fram að kosningum.
„Valdið er þingmannana,“ sagði Guðni þegar hann var spurður hvort hann vissi hvernig þinghaldi yrði háttað. „Ég frétti af því eins og þið hvernig þingið starfar. Það verður ekkert ákveðið um það hér á Bessastöðum.“
Forsetinn ítrekaði upphafsorð sín við þingsetningu Alþingis á dögunum um að þingið sé þungamiðja í stjórnskipaninni á Íslandi. „Því er svo mikilvægt að þingið njóti virðingar manna á meðal,“ sagði hann og hvatti þá sem hafa kosningarétt að nýta atkvæðarétt sinn. „Við skiptum kannski um stjórnir, en við skiptum ekki um kjósendur.“