Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hefur fallið frá þremur samningum við Faxaflóahafnir sf. um uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga. Verður því ekki af áformum um uppbyggingu sólarkísilversins.
Þetta staðfestir hafnarstjóri Faxaflóahafna í samtali við Morgunblaðið í dag, en Kjarninn greindi frá því í gær að hvorki fyrirtækið né íslenska ríkið hefðu áfrýjað niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að kísilverksmiðjan þyrfti ekki að fara í umhverfismati.
Í frétt Morgunblaðsins segir að Michael Russo, framkvæmdastjóri Silicor Materials Iceland ehf., hafi sent hafnarstjóra Faxaflóahafna tilkynningu í lok ágúst sem fæli í sér að lóðarsamningur, lóðarleigusamningur og hafnarsamningur, sem upphaflega voru undirritaðir í apríl 2015, taki ekki gildi. Bréfið var tekið fyrir á stjórnarfundi Faxaflóahafna sf. í gær, að því er segir í Morgunblaðinu.
Gísla Gíslason, hafnarstjóri, segir að lengi hafi verið erfiðleikar með fjármögnun verkefnisins og nú sé útséð með það að verkefnið gangi upp.
Áformin voru stórhuga en verkefnið var kynnt þannig að 450 starfsmenn hefðu starfað í verksmiðjunni þegar hún væri kominn í full afköst.