Ástæðan fyrir því að reglum um uppreist æru hafi ekki verið breytt fyrr telur Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vera að þessar beiðnir séu svo umsvifalítil verkefni. Þau hafi orðið undir í verkefnum ráðuneytisins og hafi þessi mál ekki fengið nægt rými og því setið á hakanum. Dómsmálaráðherra sat fyrir svörum á opnum fundi stjórnaskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Til umfjöllunar voru reglur um uppreist æru og þeirri atburðarás sem varð ríkisstjórninni að falli.
Í byrjun fundar kom fram að Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sé orðinn formaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í stað Brynjars Níelssonar. Sigríður hélt í upphafi fundar tölu um atburðarásina og fengu fulltrúar flokkanna að spyrja hana spurninga eftir það.
Fram kemur í máli hennar að hún hafi neitað að skrifa undir beiðni um uppreist æru í maí sem síðan var endurkölluð í morgun. Hún segir að hún hafi viljað eiga samræðu við starfsmenn ráðuneytisins um framkvæmdina, skoða forsögu uppreistar æru og afgreiða umsóknina eftir þá vinnu. Hún segir framkvæmdin áratugalanga venju en telur að stjórnsýslan taki ekki fram fyrir hendurnar á löggjafanum. 85. greinin um uppreist æru sé ótvírætt heimildarákveði en ekki skylduákvæði.
Afnema kröfu um óflekkað mannorð?
Sigríður segir afgreiðslu í ráðuneytinu vélræna varðandi þessi mál. Hún segir jafnframt að vinna við gerð frumvarps um breytingar á uppreist æru sé hafin. Ráðuneytið hafi óskað eftir sjónarmiðum, t.d. Lögmannafélags Íslands, varðandi breytingar og bíði nú eftir svörum. Frestur til að svara er til lok september. Hún segir að ekki komi annað til greina en að halda áfram með þá vinnu. Hún vilji að alfarið sé felld úr hegningarlögum uppreist æra. Hún vilji einnig afnema í reglum um lögmannsréttindi kröfu um óflekkað mannorð og það sama eigi við þegar einstaklingar vilji bjóða sig fram til sveitastjórna eða alþingis. Fólk eigi að vera veitt annað tækifæri í lífinu.
Persónuverndarsjónarmið og réttur til gagna stangast á, að hennar mati. Hún segir að vegna þess að hægt sé að leggja málin undir úrskurðarnefnd þá hafi gögnin ekki verið gefin upp þegar óskað var eftir því í sumar.
Neitun umsóknaraðila hafði enga þýðingu
„Mér hefði hins vega fundist eðlilegt að haft væri samband við umsagnaraðila við afgreiðslu málanna,“ segir hún um það ferli sem á sér stað við beiðnir um uppreist æru. Ekki sé haft samband við umsóknaraðila og þeir spurðir út í meðmælin.
Varðandi að hafa samband við umsagnaraðila vegna opinberun gagna segir hún að úrskurðarnefndin hafi greint frá því að neitun þessara aðila hefði enga þýðingu og þess vegna hafi ekki verið haft samband við þá. Sigríður segist hafa orðið hugsi yfir því en vegna úrskurðar þá hafi málið farið með þessum hætti.
Um ástæður þess að gefa ekki upp strax nöfn meðmælenda spyr hún sig hvort sanngjart og eðlilegt sé fyrir þann sem gaf umsögn að nafn hans væri komið á internetið. Þeir hljóti þó að átta sig á því að þetta séu upplýsingar sem eigi erindi til almennings.
Falsaðar umsagnir lögreglumál
Ef komi í ljós að umsagnir séu hreinlega falsaðar þá er það orðið lögreglumál, segir hún. Hún gat ekki svarað því afdráttarlaust hvort hægt sé að afturkalla ákvörðun um uppreist æru. Ef skjöl séu ekki sannleikanum samkvæm er ákvörðunin röng líka en þá þurfi staðfestingu dóms. Hún segir að ekki sé auðvelt að taka einstaka mál upp aftur.
Sigríður telur að ekki eigi að setja þingmenn í þá stöðu að hafa trúnaðargögn undir höndum. Sjálf hafi hún gert athugasemdir við þetta í öðrum nefndum. Þingmenn eigi ekki að vera settir í stjórnsýslustöðu og vera að véla með trúnaðargögn. Þetta sé óþægileg staða fyrir þingmenn.