Meira en helmingur þeirra sem svöruðu nýjum þjóðarpúlsi Gallup segjast vilja að Vinstri græn taki sæti í ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningarnar 28. október næstkomandi.
Fleiri vilja fá annað hvort Framsóknarflokkinn eða Samfylkinguna en Sjálfstæðisflokkinn í næstu ríkisstjórn.
Fréttastofa RÚV greindi frá niðurstöðum könnunar Gallup á vefnum í dag. Búast má við að greint verði frá fylgi flokka miðað við könnun Gallup síðar í dag.
Spurt var: Hvaða flokkar, tveir eða fleiri, myndir þú vilja að mynduðu nýja ríkisstjórn? Vinstri græn voru oftast nefnd, eða af 57 prósent svarenda. 35 prósent nefndu Framsóknarflokkinn, 33 prósent vilja Samfylkinguna, 31 prósent vilja Sjálfstæðisflokkinn, 30 prósent sögðust vilja fá Pírata að stjórnarborðinu. Þá nefdu 26 prósent Bjarta framtíð en 19 prósent Viðreisn.
Niðurstöður könnunar Gallup 20. september 2017
Af þeim flokkum sem ekki hafa sæti á Alþingi í dag nefndu 19 prósent svarenda Flokk fólksins og Dögun var nefnd af fjögur prósent þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar.
Sú samsetning flokka sem fólk nefndi oftast var samsteypustjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. 14 prósent þeirra sem svöruðu nefndu það. Annars sögðust sex prósent vilja ríkisstjórn Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna.
Fimm prósent svarenda nefndu ríkisstjórnarsamstarf milli Samfylkingar og Vinstri grænna. Fjögur prósent svarenda nefndu Vinstri græn og Bjarta framtíð og önnur fjögur prósent sögðust vilja sjá samstarf Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.
Fyrsta könnun Gallup eftir stjórnarslit
Sá þjóðarpúls Gallup sem birtur er í dag er fyrsta könnun Gallup síðan Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu í síðustu viku. Könnunin var gerð dagana 15. til 19. september. 1.143 voru í úrtaki könnunar og þátttökuhlutfallið rúmlega 53 prósent, að því er kemur fram á vef RÚV.
Búast má við að tíðni kannana á fylgi stjórnmálaflokka muni aukast á næstu vikum, enda er stutt til kosninga. Kjarninn mun birta Kosningaspá í samstarfi við Baldur Héðinsson stærðfræðing fyrir þessar kosningar eins og síðustu Alþingiskosningar og sveitastjórnarkosningar.
Í kosningaspánni eru kannanir vigtaðar út frá fyrirfram ákveðnum stuðlum og niðurstöður allra kannna þannig lagðar saman í eina spá um fylgi við stjórnmálaflokka. Kosningaspáin verður kynnt betur og niðurstöður hennar birtar á Kjarnanum á næstu dögum.