Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, segist ætla að láta drepa son sinn ef ásakanir um að hann tengist kínverskum glæpasamtökum, sem stunda fíkniefnasmygl, reynast réttar.
Paolo Duterte, 42 ára gamall sonur Rodrigo, kom fyrir þingnefnd fyrr í mánuðinum til að svara fyrir áskanir um fíkniefnaviðskipti.
Hefur Paolo verið ásakanir um að tengjast umfangsmiklum viðskiptum með verksmiðjuframleidd fíkniefni, meðal annars metaamfetamín, að því er segir í umfjöllun ABC fréttastofunnar.
Rodrigo Duterte hefur rekið miskunnarlausa stefnu gagnvart fíkniefnasölu og fíklum, og látið drepa hátt í 10 þúsund manns á einungis 18 mánuðum.
Sjálfur fullyrðir forsetinn að lögreglan sé að fara að lögum í landinu, og að flest drápin hafi verið í sjálfsvörn. Ekkert bendir til þess að það sé rétt, og hafa fjölmiðlar og mannréttindasamtök fullyrt að um skipulögð fjöldamorð sé að ræða sem forsetinn hefur fyrirskipað. „Ég hef sagt það áður að ef börn mín eru í fíkniefnum þá drepið þau svo fólk hafi ekkert til að tala um,“ sagði Duterte í ræðu.„Ég sagði við Pulong (gælunafn Paolo) að ég hef fyrirskipað að þú verði drepinn ef þú verður gripinn og ég mun vernda lögreglumanninn sem drepur þig,“ sagði forsetinn í ræðu frammi fyrir starfsmönnum ríkisins.
Óhætt er að segja að stefna forsetans hafi verið umdeild á Fillipseyjum, en ekki síður um allan heim.