Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, ætlar ekki að taka það til skoðunar að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ákvað að segja Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra frá því að faðir hans hefði skrifað undir meðmæli fyrir uppreist æru dæmds barnaníðings.
Morgunblaðið greinir meðal annars frá þessu á vef sínum í dag. Tryggvi var gestur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun til að ræða um þær reglur sem gilda um uppreist æru og framkvæmd slíkra mála í stjórnsýslunni. Eftir fundinn svaraði hann spurningum fjölmiðlamanna.
„Ég gerði grein fyrir því að eftir þá athugun sem ég hef gert á því sem fyrir liggur þá hef ég ekki talið tilefni til þess,“ er haft eftir Tryggva í mbl.is um að taka upp frumkvæðisrannsókn á málinu.
Í dómsmálaráðuneytinu er þegar hafin vinna við endurskoðun laga um uppreist æru og framkvæmd þeirra mála í stjórnsýslustiginu. Tryggi útilokaði ekki að málið yrði tekið upp að nýju.
„Það hefur alltaf verið mín afstaða að á meðan framkvæmdavaldið vill endurskoða hlutina og færa þá til betri vegar, þá verði að bíða og sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir þá kann að vera tilefni til að taka mál fyrir að nýju. Framkvæmdavaldið er þannig að þar eru sérfræðingarnir til að vinna úr þessu, taka við ábendingum, bæði þings og þjóðar, og að mínum dómi er rétt að bíða.“
Trúnaðarbresturinn var að halda upplýsingum leyndum
Ákvörðun Sigríðar um að upplýsa Bjarna um aðkomu föður hans að málum uppreist æru í júlí er í grunnin ástæða þess að Björt framtíð ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Björt framtíð taldi það hafa verið trúnaðarbrest að hálfu Bjarna og Sigríðar að leyna þessum upplýsingum fyrir samráðherrum í ríkisstjórn þar til á mánudaginn í síðustu viku.
Bæði Sigríður og Bjarni hafa borið fyrir sig trúnaðarskyldu í þessu máli og það hafi verið ástæða þess að þau hafi ekki upplýst um málið fyrr. Sigríður hefur hins vegar einnig sagt að allir ráðherrar hafi haft aðgang að gögnum málsins ef þau óskuðu þess.