Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins úr Norðausturkjördæmi, sækist eftir efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í kjördæminu fyrir komandi kosningar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins, hefur átt það sæti á síðustu tveimur kjörtímabilum.
Þórunn greinir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Hún var í öðru sæti framboðslistans fyrir kosningarnar í fyrra þegar Sigmundur Davíð fékk yfirburðakosningu í efsta sæti listans.
Þórunn segir kosningarnar eiga eftir að snúast „öðru fremur um trúverðugleika og traust í stjórnmálum“. „Ég er reiðubúin að vinna með öllu framsóknarfólki til að ná aftur sterkri stöðu flokksins í kjördæminu.“
„Meira en einn af hverjum þremur landsmönnum vill sjá Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. Nýtum þann byr og að því vil ég vinna landi og þjóð til heilla,“ skrifar Þórunn.
Fjögur sóttust eftir efsta sæti listans í fyrra. Auk Þórunnar og Sigmundar vildu Höskuldur Þórhallsson og Líneik Anna Sævarsdóttir leiða listann. Höskuldur tók ekki sæti á listanum í fyrra og vék af þingi.
Tveir þingmenn Framsóknarflokksins eru úr Norðausturkjördæmi á því þingi sem er senn á enda.