Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að segja skilið við flokkinn og stofna nýtt stjórnmálaafl. Sigmundur Davíð segir innanflokksátök og ítrekaðar tilraunir til þess að koma sér frá sé ástæða þess að hann tekur þessa ákvörðun nú.
Í löngum pistli á vefsíðu sinni, Sigmundurdavid.is, greinir Sigmundur frá þessu. Hann segist hafa staðið frammi fyrir tveimur valkostum þegar boðað var til nýrra kosninga. Annar kosturinn var að berjast áfram fyrir sæti sínu í Norðausturkjördæmi, þar sem Þórunn Egilsdóttir sækist eftir efsta sæti framboðslistan og þurfa svo að sitja í smáum þingflokki eftir kosningarnar.
Hinn kostinn hafi hann talið álitlegri en sá er að „vinna að myndun nýs stjórnmálaafls með fólki sem er reiðubúið að starfa á sömu forsendum og við leituðumst við að gera frá 2009 til 2016“.
Nýja stjórnmálaaflið sem Sigmundur Davíð hyggist stofna á að veita stöðugleikga og staðið vörð um hefðbundin grunngildi. „Þannig er hægt að mynda hreyfingu sem fylgir þeirri róttæku rökhyggju sem Framsóknarflokkurinn stóð fyrir á undanförnum árum og var að mínu mati stofnaður um,“ skrifar Simgundur. „Slíkt afl mun geta haldið áfram þeirri vinnu sem við vorum langt komin með árið 2016.“
Flokkur hans hyggist bjóða fram í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi.
Í pistlinum rekur Sigmundur Davíð hvernig öfl innan Framsóknarflokksins reyndu ítrekað að bola honum í burtu eða „grafa undan honum“. Þar hafi Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður í flokknum þegar Sigmundur var formaður og núverandi formaður Framsóknarflokksins, farið fremstur í flokki.
Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð höfðu báðir fengið mótframboð á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar í ár. Báðir hafa vermt efsta sæti þessara lista undanfarin kjörtímabil. Engar fregnir hafa enn borist af því hvort Gunnar Bragi hyggist ganga til liðs við Sigmund Davíð.
Í morgun var greint frá því að Björn Ingi Hrafnsson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, ynni að stofnun nýs stjórnmálaflokks, Samvinnuflokkinn. Í samtali við fjölmiðla segir Björn Ingi að þar verði í framboði fyrrverandi þingmenn annarra flokka og hugsanlega núverandi þingmenn annara flokka. Ekkert er fjallað um „Samvinnuflokkinn“ í pistli Sigmundar Davíðs eða um Sigmund Davíð í fréttum af Samvinnuflokknum. Þó má gera ráð fyrir að stjórnmálaafl Sigmundar sé einmitt Samvinnuflokkurinn.