Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segist vilja starfa með flokkum að loknum kosningum sem vilji öflugt heilbrigðis- og menntakerfi og samgöngur. Hann vill að kjör þeirra sem lakast standi verði bætt og nefnir þar sérstaklega aldraða, öryrkja og börn. Hann vill endurbæta skattkerfið með léttari skattbyrði á fólk með milli- og lægri tekjur en hækka skatta á háar tekjur.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi sem hann hefur sent á flokksmenn Framsóknarflokksins í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins, sagði sig úr honum og boðaði nýtt framboð í gær.
Fjölmargir Framsóknarmenn hafa sagt sig úr flokknum í gær og í dag og ætla að fylgja Sigmundi Davíð yfir í hans nýja framboð, sem enn hefur ekki hlotið nafn opinberlega. Sigurður Ingi hvetur Framsóknarfólk til að standa saman í bréfinu. Þar segir hann að það þurfi ekki „að eyða mörgum orðum í þá atburði sem urðu til þess að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins ákvað að segja skilið við flokkinn. Þá atburði þekkjum við vel og höfum eðlilega á þeim mismunandi skoðanir. Það er nauðsynlegt að við núverandi aðstæður að taka stöðuna og ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum Framsóknarflokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Það gerum við með samstöðu og samvinnu alls þess góða fólks sem í flokknum starfar og stuðningsmanna hans.“
Hann segir síðar í bréfinu að kjósendur vilji trausta stjórnmálamenn og flokka sem sýni ábyrgð í störfum sínum. Komandi kosningar muni snúast um traust og stöðugleika. Helstu málefnaáherslur Framsóknar verði einmitt þær, traust og stöðugleiki, ásamt uppbyggingu í heilbrigðis- og menntamálum og stórbættu samgöngukerfi.