„Hæ, ég heiti Herborg. Ég rýni í smáa letrið hjá bönkum og lífeyrissjóðum til að auðvelda þér að finna bestu kjörin næst þegar þú tekur lán.“
Þetta eru skilaboðin sem mæta gestum nýs vefs, herborg.is, sem hagfræðingurinn Björn Brynjúlfur Björnsson hefur sett í loftið. Á vefnum má sjá yfirlit yfir lánakjör helstu lánastofnana sem lána fyrir húsnæðiskaupum á Íslandi.
Björn Brynjúlfur skrifar á vefinn að hann hafi velt fyrir sér hvers vegna það tæki svo ótrúlega langan tíma að leita að láni þegar hann keypti sína fyrstu íbúð. „Eftir að hafa legið yfir heimasíðum banka og lífeyrissjóða (þeir eru 28 talsins!) í nokkra daga tókst mér loksins að útbúa almennilegt yfirlit yfir stöðuna.“
Hann hafi í kjölfarið komist að því að fleiri ættu við þetta vandamál að stríða þegar þeir hugðust leita að láni. „Fæstir vissu af öllum sem bjóða upp á húsnæðislán á Íslandi og höfðu bara tekið lán hjá einhverjum sem var áberandi á þeim tíma,“ skrifar Björn Brynjúlfur ennfremur.
Samanburður þeirra lána sem listuð eru á vefnum er hlutlaus og ætlunin að hafa hagsmuni lántakans að leiðarljósi. Herborg.is hefur engin tengsl við lánveitendur. Á vefnum má einnig finna svör við þeim spurningum sem helst kvikna þegar fólk hyggist taka húsnæðislán.