Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Overcast hefur gert samstarfssamning við stóra auglýsingastofu í Noregi, SMFB Engine. Auglýsingastofan dreifir auglýsingum fyrir nokkra af stærstu auglýsendum í Noregi, þar á meðal IKEA, Diadora og Freia.
Overcast hefur á undanförnum árum verið að þróa hugbúnað fyrir auglýsingamarkaðinn þar sem markmiðið hefur verið að einfalda flókið birtingarferli, frá ákvörðun um birtingu auglýsinga þar til að auglýsingin birtist á skjám netverja. Fyrirtækið var stofnað árið 2014 og er í eigu starfsmanna þess.
Afurðin er Airdate sem þykir henta vel fyrir hinn síkvika stafræna augýsingaheim. „SMFB Engine er í sífelldri þróun vegna þess hve hratt stafræni auglýsingamarkaðurinn hreyfist,“ er haft eftir Kim Herlung, framkvæmdastjóra norsku auglýsingastofunnar, í tilkynningu.
„Airdate frá Overcast Software endurspeglaði okkar metnað með einfaldri lausn á gríðarlega flóknu ferli við rekstur alþjóðlegra auglýsingaherferða þvert á margar tegundir miðla.“
Overcast hefur verið að kynna lausnir sínar á erlendum vettvangi á undanförnum mánuðum. „Overcast er með mjög tæknilega vel útfærða lausn sem hentar norska markaðinum vel,“ Báður Örn Gunnarsson markaðsráðgjafi sem hefur leitt vinnu við kynningu á hugbúnaðinum í Noregi. „Norski markaðurinn er margfalt stærri en sá íslenski og mun framar tæknilega en þó eiga þeir margt sameiginlegt. Osló var því áskorun en augljós fyrsti áfangastaður.“
Stór hluti íslenskra auglýsingastofa og birtingarhúsa auk markaðsdeilda stærri fyrirtækja nota daglega hugbúnað frá fyrirtækinu. Umsýsla með auglýsingarnar sem birtast í Kjarnanum fer til dæmis fram í hugbúnaðinum.
„Samningurinn við SMFB Engine er mikið gleðiefni fyrir okkur hjá Overcast Software og staðfestir að það er vöntun á hugbúnaði á borð við Airdate á stærri mörkuðum. Þetta er því fyrsta skrefið í áttina að frekari útbreiðslu Airdate á Norðurlandamarkaði,“ segir Kjartan Sverrisson, framkvæmdastjóri Overcast Software.