Lögmannafélag Íslands hefur fengið þær upplýsingar frá Hæstarétti Íslands að vegna fyrirhugaðrar fækkunar Hæstaréttardómara muni málsmeðferðartími lengjast og málflutningsdögum fækka. Að óbreyttu megi gera ráð fyrir að það geti tekið 18 til 24 mánuði að fá niðurstöðu dómstólsins í einkamálum sem áfrýjað verður eftir 1. október næstkomandi. Þetta kemur fram í bréfi sem Lögmannafélagið sendi meðlimum sínum í morgun, og Kjarninn hefur undir höndum.
Samkvæmt dómstólalögum sem taka gildi um komandi áramót munu sjö dómarar eiga sæti í Hæstarétti. Samhliða mun nýtt millidómstig, Landsréttur, hefja starfsemi. Samkvæmt núgildandi lögum eru dómarar við Hæstarétt tíu talsins en tveimur var nýverið veitt lausn frá embætti og dómarar því átta í dag.
Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um hver meðalmálsmeðferðartími Hæstaréttar Íslands er sem stendur, en ljóst er að hann er mun styttri en sá sem nú er boðaður. Ný dómstólalög gera ráð fyrir að Hæstiréttur ljúki þeim málum sem til hans hefur verið áfrýjað fyrir 1. janúar 2018 og því liggur fyrir að það muni taka Hæstarétt nokkurn tíma að vinna úr þeim. Þegar rétturinn hefur lokið málum sem áfrýjað hefur verið fyrir gildistöku laganna mun áfrýjuðum málum sem til meðferðar eru hjá réttinum fara fækkandi, og fleiri mál fá endanlega niðurstöðu á millidómsstígi.