Starfsstjórnin sem nú stýrir ráðuneytum Íslands hefur ákveðið að tekin verði saman stöðuskýrsla um framgang vinnu við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum fyrir Ísland.
Þetta kemur fram í svari frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans. Ný ríkisstjórn sem mun taka við eftir kosningarnar 28. október þarf svo að taka ákvörðun um framhald vinnunar.
Vinna við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum hófst í febrúar á þessu ári. Áætlunin er í fyrsta sinn unnin jafnt þvert á ráðuneyti og átti það vera til marks um breiðan pólitískan vilja til þess að gera loftslagsmálum hátt undir höfði. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar sem stóð að þessari nýju nálgun féll 15. september.
Fyrirspurn Kjarnans fjallaði um það hvort vinnan við aðgerðaáætlunina myndi lifa af, í ljósi þess að þetta er í fyrsta sinn sem þessi vinna fer fram á ábyrgð margra ráðuneyti samtímis.
Í svari ráðuneytisins er haft eftir Björtu Ólafsdóttur, starfandi umhverfisráðherra, að helstu áherslur áætlunarinnar liggi nú þegar fyrir. „Vinnan við aðgerðaáætlunina hefur gengið mjög vel og megináherslur hennar liggja þegar fyrir þó að sjálfsögðu sé hún ekki fullkláruð,“ skrifar Björt.
„Hún átti að liggja fyrir í lok árs en, í ljósi breyttrar stöðu var ákveðið að taka saman stöðuskýrslu verkefnisins. Stefnt er á að sú samantekt verði tilbúin fljótlega svo hægt verði að ræða innihald hennar á vettvangi stjórnmálanna í komandi kosningabaráttu.“
„Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að ákveða með framhald verkefnisins en þar sem þessi vinna hefur farið fram í góðri samvinnu allra hlutaðeigandi þá bind ég miklar vonir við að verkefnið verði keyrt af stað sem fyrst eftir að ný ríkisstjórn tekur við og áætlunin liggi fyrir snemma næsta ár,“ skrifar Björt Ólafsdóttir.