Vinstri græn mælast með mest fylgi allra stjórnmálaflokka í nýrra könnun MMR. Alls mælist fylgi flokksins 24,7 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 23,5 prósent og fylgi Samfylkingar 10,4 prósent. Þetta yrði þrír stærstu flokkar landsins ef kosið yrði í dag.
Þar á eftir kæmi Flokkur fólksins með 8,5 prósent fylgi. Athygli vekur að væntanlegt framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist með 7,3 prósent fylgi, sem er meira fylgi en Framsóknarflokkurinn mælist með. Fylgi við hann mælist 6,4 prósent. Þetta er fyrsta skoðanakönnunin sem framkvæmd er þar sem fylgi við vænt framboð Sigmundar Davíðs er mælt. Ljóst er samkvæmt þessu að hann tekur best fylgi frá Framsókn en fylgi Sjálfstæðisflokks og Fólks flokksins dalar einnig með tilkomu framboðs hans.
Píratar mælast mælast nánast jafnstórir og Samfylking með tíu prósent fylgi. Það er töluvert minna fylgi en flokkurinn mældist með í byrjun september þegar fylgið mældist 13,8 prósent. Hvorki Viðreisn né Björt framtíð myndu ná inn á þing ef kosið yrði í dag. Fylgi Viðreisnar mælist 4,9 prósent og fylgi Bjartrar framtíðar 2,5 prósent.
Könnunin var framkvæmd daganna 26-28. september og var úrtakið handahófskennt val á einstaklingum 18 ára og eldri úr hópi álitsgjafa MMR. Alls svöruðu 1.012 manns könnuninni.