Ekki er ljóst hvort breytt tilhögun bygginga á lóð United Silicon hefur á áhrif á loftdreifingu frá verksmiðjunni.
Síðastliðið vor var greint frá því að nýrri byggingu hafi verið bætt inn í skipulag lóðarinnar í Helguvík tveimur og hálfu ári eftir að skýrsla um umhverfismat vegna framkvæmdanna var kynnt.
Skipulagsstofnun hafði ekki verið tilkynnt um þessa viðbót og óskaði eftir skýringum frá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ. Þær skýringar fengust loks að svo virtist sem að mistök hefðu verið gerð þegar breytingar á teikningum af verksmiðjunni voru samþykktar, þvert á umhverfismat og þau loforð sem gefin höfðu verið.
Í samtali við Kjarnann segir Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, að óháðir eftirlitsaðilar kanni hvort breytt skipulag á lóðinni í Helguvík hafi kallað á nýtt mengunardreifilíkan. Í gögnum frá Skipulagsstofnun segi að ekki sé ljost hvort eða hvernig breytt umfang mannvirkja hafi á reikningana en miklar mælingar hafi verið gerðar á svæðinu og eftirlitsstofnanir fari yfir þetta mál ef þörf þykir á.
Í umhverfismati framkvæmdanna var lítið sem ekkert fjallað um lyktarmengun frá verksmiðjunni. Umhverfisstofnun segir að það atriði hafi verið vanreifað í umhverfismatinu. Lyktarmengun hafi hins vegar ekki verið vandamál í nágrenni sambærilegra verksmiðja annars staðar í heiminum.
Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi United Silicon, er einnig grunaður um að hafa falsað reikninga og náð þannig yfir hálfum milljarði króna út úr fyrirtækinu. Magnús starfaði áður hjá COWI í þrjú ár eða til ársins 2003.
Mikil lyktarmengun var af verksmiðjunni í þann skamma tíma sem hún var starfrækt. Umhverfisstofnun lét loka verksmiðjunni í haust vegna mikillar mengunar frá starfseminni. Mengunin hafði verið svo mikil, frá því að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, gangsetti ljósbogaofninn í fyrsta sinn 13. nóvember 2016, að íbúar í nágrenninu efndu til mótmæla. Fjölmargar kvartanir höfðu borist til yfirvalda vegna lyktarmengunar frá verksmiðjunni.
Uppfært og leiðrétt 15:03, 30.9.1017: Fréttin hefur verið leiðrétt og henni breytt. Beðist er velvirðingar á mistökunum.