Munnlegur málflutningur um samkomulag Kaupþings og Deutsche Bank, í tengslum við kaup Kaupþings á lánshæfistengdum skuldabréfum, fer fram 11. október, og verður þá fjallað um hvort samkomulagið hafi þýðingu fyrir mál ákæruvaldsins gegn stjórnendum Kaupþings.
Í hinu svokallaða CLN-máli eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, ákærðir, en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar eftir sýknudóm í héraði, 26. janúar í fyrra, og málskostnaður að öllu leyti féll á ríkissjóð.
Í málinu eru Hreiðar Már, Sigurður og Magnús ákærðir fyrir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélaga þeirra, samanlagt um 510 milljónir evra, eða sem nemur um 64 milljörðum króna á núverandi gengi.
Deutsche Bank AG í London gaf út skuldabréfin og mun hafa haft með höndum umsjón viðskiptanna.
Í ákæru er því haldið fram að við lánveitinguna hafi ýmsar reglur Kaupþings banka hf. verið brotnar.
Magnúsi Guðmundssyni er gefin að sök hlutdeild í brotum Hreiðars Más og Sigurðar, en í ákærunni er lýst með hvaða hætti sá banki hafi tekið þátt í framkvæmd kaupanna á hinum lánshæfistengdu skuldabréfum.
Með þessu voru ákærðu taldir hafa stefnt fé Kaupþings banka hf. í verulega hættu. Í ákærunni segir jafnframt um öll lánin, en þau námu samtals 510 milljónum evra, að þau hafi ekki verið greidd til baka og lánsféð yrði að teljast Kaupþingi banka hf. glatað.
Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins og er þess aðallega krafist að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og dæmdir til refsingar, en til vara er krafist ómerkingar héraðsdóms.
Ákærðu krefjast þess fyrir Hæstarétti að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um sýknu ákærðu.
Með greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar fylgdi samkomulag, sem gert hafði verið 12. desember 2016 og hefur verið til umfjöllunar að undanförnu í fjölmiðlum, milli Kaupþings ehf. sem er félag sem sér um umsýslu eigna Kaupþings banka hf. eftir að slitum á bankanum lauk, og Deutsche Bank í London.
Með samkomulaginu luku aðilar þess ágreiningi sem rekinn hefur verið fyrir ýmsum dómstólum um kröfur Kaupþings ehf. á hendur Deutsche Bank AG um greiðslur vegna þeirra lánshæfistengdu skuldabréfa sem ákæra í málinu tekur til.
Með samkomulaginu skuldbatt bankinn sig til þess að greiða Kaupþingi ehf. 212,5 milljónir evra gegn því að fallið verði frá málarekstrinum.
Fram kom einnig að annað samkomulag með áþekku efni hafi verið gert við félögin Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group SA, en þau voru kaupendur að þeim lánshæfistengdu skuldabréfum sem um ræðir í ákæru og þágu beint eða óbeint lán til þess frá Kaupþingi banka hf.
Deutsche Bank AG mun samkvæmt því samkomulagi einnig hafa skuldbundið sig til þess að greiða þeim félögum 212,5 milljónir evra, en að Kaupþing ehf. muni við uppgjör einnig fá um 90% af þeirri fjárhæð. Samkvæmt þessu hefur Deutsche Bank AG skuldbundið sig til þess að greiða 425 milljónir evra vegna þeirra lána sem Kaupþing banki hf. veitti og ákæra tekur til og námu samtals 510 milljónum evra.
Fjallað er um efnisatriði þessarar formhliðar málsins á vef Hæstaréttar, þar sem tilkynnt er um dagsetningu munnlegs málflutnings. „Það er skilyrði þess að sakfellt verði fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga að ákærður maður hafi haft tiltekna aðstöðu til þess að skuldbinda annan mann eða lögaðila, að hann hafi misnotað þessa aðstöðu sína og með því valdið þeim, sem hann skuldbatt, verulegri fjártjónshættu. Þar sem ákæra í málinu er reist á þeim grundvelli að lánin sem Kaupþing banki hf. veitti eignarhaldsfélögum þeim sem í ákæru greinir, samtals að fjárhæð 510.000.000 evrur, hafi ekki greiðst til baka og séu Kaupþingi banka hf. glötuð, en nú hefur verið lagt fram samkomulag sem felur í sér að Deutsche Bank AG hefur skuldbundið sig til að greiða 425.000.000 evrur af þeirri fjárhæð hefur Hæstiréttur tekið ákvörðun um að nauðsynlegt verði að sakamálið gegn ákærðu verði í fyrstu umferð að minnsta kosti flutt um tvö atriði, sem lúta að formi þess,“ segir á vef Hæstaréttar.
Eins og áður segir hefur saksóknara og verjendum ákærðu hefur því verið tilkynnt að 11. október 2017 skuli málið eingöngu flutt um tvö atriði.
Annars vegar hvort sú greiðsla sem Deutsche Bank AG á að inna af hendi samkvæmt framansögðu hefur þýðingu fyrir grundvöll málsins og úrlausn þess og þá eftir atvikum hvaða þýðingu. „Í tengslum við það verður að ætla að fjalla verði jafnframt meðal annars um hvort við rannsókn málsins hafi verið hugað nægilega að því hvort greiðsluskylda samkvæmt skuldabréfunum hafi hvílt á Deutsche Bank AG og ef ekki, hvort rannsaka þurfi hvers vegna bankinn hafi þá kosið að greiða framangreinda fjárhæð, svo og á grundvelli hvaða gagna og með hvað rökum Kaupþing ehf. og félögin tvö, Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group SA, hafi krafið Deutsche Bank AG um greiðslu,“ segir á vef Hæstaréttar.
Hins vegar er það síðan atriði um varakröfu ákæruvaldsins um ómerkingu héraðsdóms vegna ætlaðra annmarka á samningu dómsins.
Komi til þess að málið verði síðar tekið til efnismeðferðar fyrir Hæstarétti verður það þá einnig flutt um kröfur ákærðu um frávísun málsins.