Skýrsla Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um rannsóknarverkefni sem hann stýrir á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um erlenda áhrifaþætti hrunsins hefur ekki enn verið skilað til ráðuneytisins. Hannes hefur hins vegar greint ráðuneytinu frá því að henni verði skilað í október. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki skipulagt neina sérstaka kynningu á skýrslunni og niðurstöðum hennar þegar hún berst ráðuneytinu. Þetta kemur fram í svari þess við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Hannesi var falið að stýra rannsóknarverkefninu í júlí 2014 af þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni. Áætlaður kostnaður við verkefnið var tíu milljónir króna og áætluð verklok voru í byrjun september 2015. Í júní síðastliðnum var greint frá því í fjölmiðlum að til stæði að kynna skýrsluna 8. október næstkomandi, á níu ára afmæli hrunsins. Á sama tíma var greint frá því að skýrslan væri í yfirlestri.
Ráðning Hannesar til verksins var afar umdeild og var víða gagnrýnd sökum mikilla tengsla hans við áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega fyrrverandi seðlabankastjórann Davíð Oddsson, sem nú stýrir Morgunblaðinu.
Fjallar meðal annars um FIH
Hannes skrifaði grein í Morgunblaðið 21. apríl 2015 þar sem hann opinberaði í fyrsta sinn hluta af því sem hann er að skrifa um í skýrslu sinni. Í greininn fjallaði hann í löngu máli um söluna á FIH-bankanum, sem tekin var sem veð fyrir neyðarláni Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október, þegar Davíð Oddsson stýrði enn Seðlabankanum. Kjarninn greindi frá því 2. október 2014 að tap íslenskra skattgreiðenda vegna FIH væri 35 milljarðar króna.
Hannes komst að þeirri niðurstöðu að FIH hafi verið gott veð. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi hins vegar verið plataður í málinu með þeim afleiðingum að Ísland varð af 60 milljarða króna ágóða vegna FIH, og sat þess í stað uppi með ofangreint tap.
Már svaraði grein Hannesar skömmu síðar. Hann sagði Hannes misskilja margt í málinu og fullyrti að ef Seðlabankinn hefði knúið FIH bankann í slitameðferð haustið 2010 hefði allt neyðarlánið sem bankinn veitti Kaupþingi 6. október 2008 tapast. Með því að selja bankann takist Seðlabankanum að innheimta liðlega helming lánsins, sem var upp á 500 milljónir evra.
Seðlabankinn er líka að vinna að skýrslu
Um svipað leyti og skýrsla Hannesar verður kynnt ætlar Seðlabanki Íslands að kynna skýrslu sem hann hefur unnið um neyðarlánveitingu bankans til Kaupþings í október 2008. Kjarninn greindi frá því í júlí að vinna við skýrsluna væri langt á veg komin og að hún yrði kynnt í bankaráði Seðlabankans á haustmánuðum. Seðlabankinn vildi þó ekki gefa upp nákvæma dagsetningu fyrir útgáfu skýrslunnar.
Hún hefur þó, líkt og skýrsla Hannesar, verið lengi á leiðinni. Már Guðmundsson seðlabankastjóri greindi frá því í febrúar 2015 að hann ætlaði að láta taka saman skýrslu um tildrög þess að Kaupþing fékk neyðarlán upp á 500 milljónir evra frá bankanum 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland í sjónvarpsávarpi. Það eru því um tvö og hálft ár liðið frá því að skýrslan var boðuð.
Í svari við fyrirspurn frá Kjarnanum um afdrif skýrslunnar, sem send var í júlí, segir Seðlabanki Íslands að ákveðið hafi verið að bæta söluferli FIH bankans – en sá danski banki var tekinn sem veð fyrir láninu – við skýrsluna. „Sá hluti er mjög umfangsmikill og snertir m.a. þróun efnahags- og bankamála í Danmörku. Vegna mikilla anna starfsmanna við önnur verk hefur verið erfiðleikum bundið að tryggja næga krafta í þetta verk – en það er sem sagt langt á veg komið,“ segir í svarinu.