Kvenviðmælendum í ljósvakamiðlum fjölgar um 2 prósent milli ára og eru konur nú í 35 prósent tilfella viðmælendur. Þetta kemur fram í mælingum Creditinfo á stöðu kynjanna í ljósvakamiðlum sem Félag kvenna í atvinnurekstri lét framkvæma. Konum í ljósvakamiðlum hefur fjölgað um 5 prósentustig á síðustu tveimur árum.
Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, segir að til mikils sé að vinna með því að vekja athygli á konum í fjölmiðlum. „Við sjáum á tölum að vitundarvakning er að leiða til breytinga. Þær eru að eiga sér stað og þá er mikilvægt að halda áfram,“ segir hún og bætir við að nauðsynlegt sé að hrósa fyrir það sem vel sé gert.
Íslenskir fjölmiðlar standi sig vel á heimsvísu. Íslenskar konur draga upp meðaltalið sem mældist 24 prósent árið 2015, samkvæmt Global Media Monitoring Project, það sama og var fimm árum áður. Hún segist einnig gera sér vonir um að Ísland verði fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir í jafnréttismálum.
Færri konur í fréttum en þáttum
„Það er einkar ánægjulegt að sjá aukningu í hlutdeild kvenna í fjölmiðlum, annað árið í röð. Þótt enn sé nokkuð í land, skiptir miklu máli að íslenskir fjölmiðlar eru að taka skref í rétta átt,“ segir Rakel. Einnig hvetur hún konur til að stíga fram, ekki aðeins þegar til þeirra er leitað heldur einnig að sýna frumkvæði þegar það á við og hafa sjálfar samband við fjölmiðla.
Færri konur birtast sem viðmælendur í fréttum en í þáttum og er hlutfall þeirra 33 prósent sem er einu prósentustigi betra en árið á undan. Hlutfallið er 62 prósent körlum í vil í þáttum innlendra ljósvakamiðla. Þar sækja konur þó í sig veðrið og eru tveimur prósentustigum fleiri nú en árið á undan. Kemur fram í könnuninni að ekki sé marktækur munur á milli útvarps- og sjónvarpsfrétta.
Miklar breytingar síðustu tvö ár
Þrátt fyrir að markmiðunum sé ekki náð þá eru þær samt sem áður ánægðar með breytingu sem orðið hefur síðustu fjögur ár. Á síðustu tveimur árum hefur prósentan hækkað úr 30 í 35, borið saman við óbreytt ástand árin tvö þar á undan. Þannig að staðan verður að teljast nokkuð góð núna, að mati Rakelar.
Hún segir að öll aukning skipti máli, til að mynda hafi staðan haldist óbreytt á heimsvísu í sjö ár sem hafi valdið því að hún hafi fundið fyrir áhuga erlendis frá. Til að mynda hafi Jafnréttisráð Evrópuþings sýnt verkefni FKA áhuga og talið athyglisvert að draga fjölmiðla að borði.
Verður að efla konur í fjölmiðlum
Rakel segist finna fyrir aukinni vitundarvakningu hjá fjölmiðlum. Nokkrir samverkandi þættir spili þar inn í til að stuðla að frekari sýnileika kvenna í ljósvakamiðlum. Í fyrsta lagi taki fjölmiðlar nú frekar meðvitaða ákvörðun um að breikka viðmælendahópinn og í öðru lagi að fjölbreytni innan ritstjórna leiði af sér fjölbreyttara efni. Hún segir að til þess að efla konur í samfélaginu þá þurfi að efla konur í fjölmiðlum.
Einnig endurspegli umfjöllunin kynjahlutfall í stjórnmálum og stjórn fyrirtækja. Hún bendir á að ef halli á konum í valdastöðum þá komi það niður á kynjahlutfalli í fjölmiðlum. Rakel bendir á að fjölmiðlar stjórni auðvitað ekki hvernig jafnrétti er háttað í samfélaginu en þeir hjálpi tvímælalaust til.
Þátturinn Samfélagið kom best út
Á fundi í húsakynnum Blaðamannafélagsins 4. október kom fram að fréttatímar RÚV standa sig betur en fréttatímar 365. Konur eru 37 prósent viðmælenda þar á móti 63 prósent karla. Þær eru fimm prósentustigum færri hjá 365, eða 32 prósent á móti 68 prósent.
Þátturinn Samfélagið á Rás 1 stendur sig best en þar eru konur 51 prósent viðmælenda en karlar 49 prósent. Reykjavík Síðdegis stendur sig verst, með hlutfallið 24 prósent konur á móti 76 prósent karla og dalar hlutfall kvenna milli ára.
Þrjú prósent viðmælenda komu 15 sinnum eða oftar fyrir í ljósvakamiðlum á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017. Þar af voru 99 karlar og 52 konur. Sjö konur eru á topp tuttugu vinsælustu viðmælenda. Allar eru þær í stjórnmálum; Katrín Jakobsdóttir þar efst, svo Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Sigríður Á. Andersen.
Creditinfo sá um að mæla frétta- og fjölmiðlaumfjöllunina. Mæling á hlutföllum kynjanna í ljósvakamiðlum nær til Rás 1, Rás 2, Bylgjunnar, Sjónvarpsins og Stöð 2 á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017. Horft var til allra viðmælenda frétta í ljósvakamiðlum. Auk frétta voru helstu þættir mældir.