Mikil þörf er á því að ráðast í innviðafjárfestingar hér á landi, en uppsöfnuð viðhaldsþörf fjárfestinga í þeim er metin 372 milljarðar króna, eða sem nemur um 11 prósentum af heildarendurstofnvirði innviða í landinu.
Til þeirra teljast meðal annars hafnir, flugvellir, vegir, orkumannvirki, veitukerfi, úrgangsmál og fasteignir í eigu ríkis og sveitarfélaga.
Þetta kemur fram í viðamikilli skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga, þar sem fjallað er um innviði í landinu og stöðu einstakra þátta. Hún verður kynnt á fundi í Hörpu í dag. Í formála skýrslunnar segir dr. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að nú sé réttur tímapunktur til að huga að stórfelldum innviðafjárfestingum. „Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun,“ segir Sigurður, en með skýrslunni vilja SI og Félag ráðgjafaverkfræðinga stuðla að umræðu um mikilvægi innviðafjárfestinga í landinu.
Heildarendurstofnvirði ofangreindra innviða er áætlað 3.493 milljarðar króna. Til samanburðar stóðu heildareignir lífeyrissjóða landsmanna í 3.725 milljörðum króna í lok júlí 2017.
Með endurstofnvirði er átt við kaupverð eða kostnaðarverð sambærilegra innviða með sömu framleiðslu og/eða þjónustugetu, að því er segir í skýrslunni. „Færa má rök fyrir því að virði þessara eigna fyrir samfélagið sé mun meira þegar tekið er tillit til þess hvað þær leggja til verðmætasköpunar efnahagslífsins. Af þessu má ljóst vera að veruleg verðmæti eru bundin í innviðum hagkerfisins. Af einstökum innviðum er endurstofnvirðið hæst í orkuvinnslu (850–900 milljarðar króna), vegagerð (870–920 milljarðar króna), fasteignum ríkis og sveitarfélaga (440 milljarðar króna), orkuflutningum (320 milljarðar króna) og flugvöllum (240–280 milljarðar króna). Lægst er endurstofnvirðið í úrgangsmálum (35–40 milljarðar króna),“ segir í skýrslunni.
Að meðaltali fá innviðir sem skýrslan nær til ástandseinkunnina 3,0 en einkunnargjöfin er á bilinu 1 til 5 þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta.
Miðað við þessa einkunn er staða innviða að meðaltali viðunandi en ekki góð. „Einkunnin segir að búast megi við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þessara innviða og að nauðsynlegt verði að leggja í fjárfestingar í þeim til framtíðar litið,“ segir í skýrslunni.