Samtökin ICAN fengu friðarverðlaun Nóbels árið 2017 en markmið þeirra er að berjast gegn kjarnorkuvopnum og að stuðla að kjarnorkulausum heimi. Þetta var tilkynnt í morgun í Osló.
Valið kom heldur á óvart en líklegt þykir að ástandið í Norður-Kóreu hafi haft mikil áhrif á norsku Nóbelsnefndina. Berit Reiss-Andersen, formaður Nóbelsnefndarinnar, segir að ICAN hafi hlotið verðlaunin fyrir brautryðjendastarf sitt í baráttu gegn kjarnorkuvopnum.
ICAN stendur fyrir the International Campaign to Abolish Nuclear Weapons og stóð fyrir sáttmála sem var undirritaður af 122 ríkum þann 7. júlí síðastliðinn. Hann miðar að því að eyða öllum kjarnorkuvopnum í heiminum. Ekkert kjarnorkuveldanna níu var aftur á móti á meðal þessara ríkja. Reiss-Andersen hvatti því þessar þjóðir í ræðu sinni í morgun til að semja um eyðingu vopnanna á næstu árum.
Framkvæmdastjóri ICAN, Beatrice Fihn, segist í viðtali við fréttastofu Reuters vera með skilaboð til Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna og stjórnvalda í Norður-Kóreu. Hún bendir á að kjarnorkuvopn séu ólögleg. Að hóta að nota kjarnorkuvopn sé ólöglegt og að eiga þau og þróa sé einnig ólöglegt. Þessar þjóðir þurfi að hætta öllu slíku.