Sjálfstæðisflokkurinn tapar þriðjungi þingmanna sinna samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið dagana 2. til 4. október. Flokkurinn fengi tæplega 21 prósent stuðning og myndi missa sjö þingmenn miðað við stöðu mála nú, en flokkurinn hefur 21 þingmann.
Flokkurinn nýtur nú stuðnings tæplega 21% kjósenda og fengi 14 þingmenn kjörna í stað 21.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð, sem þessi dagana heldur landsfund sinn, er langstærsti flokkurinn, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Flokkurinn mælis með 28,2% fylgi, sem gefur 20 þingmenn.
Þetta er veruleg fylgisaukning frá kosningunum 2016 þegar flokkurinn fékk tæp 16% atkvæða og 10 þingmenn.
Samfylkingin mælist með 10,8 prósent fylgi, Framsóknarflokkurinn 5,5, prósent, Píratar 9,1 prósent, Flokkur fólksins 9 prósent, Miðflokkurinn 9,5 prósent og aðrir flokkar minna. Hvorki Viðreisn né Björt framtíð nær yfir 5 prósent sam þarf til að ná inn manni.
Sé mið tekið af síðustu uppfærslu á kosningaspá.is, sem unnin er í samvinnu við Kjarnann, þá er VG með 26,9 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn 23,2 prósent. Ítarlegar upplýsingar um kosningabaráttuna má finna á kosningavef Kjarnans.