Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er tekin við sem formaður Viðreisnar. Þetta herma öruggar heimildir Kjarnans. Þingmenn flokksins funda nú á skrifstofu hans í Ármúla og þar hefur verið ákveðið að Benedikt Jóhannesson, sem hefur verið formaður Viðreisnar frá stofnun flokksins og er starfandi fjármála- og efnahagsráðherra, víki sem formaður. Ástæðan er tvíþætt samkvæmt heimildum Kjarnans. Annars vegar sú að óánægju gætir með framgöngu Benedikts að undanförnu, sérstaklega í sjónvarpsþættinum Forystusætið á RÚV á mánudagskvöld. Hins vegar er staða flokksins grafalvarleg samkvæmt skoðanakönnunum, en samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist fylgi flokksins einungis 3,3 prósent.
Í þættinum Forystusætinu lét Benedikt þau ummæli falla um uppreist æru-málið sem sprengdi ríkisstjórnarsamstarfið að málið „sem þótti svo stórt að það var ástæða til stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er.“ Hann sagðist enn fremur ekki telja að málið hafi verið þannig vaxið að það hefði verið tilefni til stjórnarslita og að Sjálfstæðisflokkurinn væri búin að gefa nauðsynleg svör um uppreist æru dæmdra kynferðisbrotamanna.
Sú framganga hans vakti upp mikla reiði innan Viðreisnar og var haldinn krísufundur í gærmorgun vegna hennar. Í kjölfarið sendi Benedikt frá sér yfirlýsingu á Facebook þar sem hann sagðist ekki hafa ætlað að gera lítið úr þeim sársauka sem þolendur kynferðisbrota og aðstandenda verða fyrir með ummælum sínum. Hann bað alla aðila málsins innilega afsökunar.
Þorgerður Katrín er starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hún er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.