Samkeppni er umfjöllunarefni sjónvarpsþáttar Kjarnans í kvöld. Þar er meðal annars fjallað um hvernig tækniþróun og netverslun, breytt neytendahegðun og innkoma alþjóðlegra fyrirtækja á borð við Costco inn á mikilvæga markaði hérlendis hefur breytt samkeppnisumhverfinu.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, ræðir meðal annars um fjölmiðlamarkaðinn og samkeppni á honum. Hann segir að það sé gríðarlega mikilvægt að út úr þessari þróun og breytingum sem eru að eiga sér stað á honum komi tækifæri til öflugri starfsemi á fjölmiðlamarkaði. „Og að það takist mögulega að leysa einhver vandamál sem lúti að fjölræði og fjölbreytni. Vandamálin eru næg eins og þið á þessum litlu fjölmiðlum hafið auðvitað bent á á undanförnum misserum.“
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félaga atvinnurekenda er einnig gestur þáttarins. Hann segir meðal annars að innlend eftirspurn eftir landbúnaðarvörum hafi aukist svo hratt að innlendir framleiðendur séu fjarri því að geta framleitt nægilega mikið til að anna henni. Það vanti svínasíður til að búa til beikon handa túristum og það sé viðvarandi skortur á nautakjöti, ekki síst gæðanautakjöti. Samt fái kaupmenn ekki að flytja inn gæða nautakjöt. „Nautgripabændur sjálfir viðurkenna að það er ekki til í íslenskri framleiðslu. Við náum ekki upp í efstu flokkanna í gæðamatskefi Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það eru miklar hömlur á innflutningi og ekki opnaðir skortkvótar fyrir nautakjöt. Það er eitt sem maður hefði viljað sjá breytast en hefur ekki breyst.“
Þátturinn er á dagskrá klukkan 21 í kvöld.