Arion banki hefur kært Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon, til Héraðssaksóknara. Kæran var send saksóknara á miðvikudag, að því er segir í Fréttablaðinu í dag, en ekki er upplýst um hverjar eru hintar meintu sakir.
Bankinn á milljarða undir vegna United Silicon verkefnisins, ásamt lífeyrissjóðum, en lán til verkefnisins námu um átta milljörðum. Bankinn hefur þegar fært þau niður, en bankinn og lífeyrissjóðir hafa tekið yfir 98 prósent eignarhalds.
Eins og fram hefur komið í fréttum, meðal annars á vef Kjarnans, hefur Héraðssaksóknari þegar til meðferðar kæru á hendur Magnúsi, og er honum meðal annars gefið að sök að hafa staðið fyrir skjalafalsi og auðgunarbrotum, og dregið sér allt að hálfan milljarð króna.
Starfsemi United Silicon var stöðvuð í ágúst með ákvörðun Umhverfisstofnunar, og hefur ekki enn farið í gang.
Sjálfur hefur Magnús alfarið hafnað þessu og sagt að hann hafi ekki brotið gegn lögum, og málið snúist nú um baráttu um eignarhald og stjórn verkefnisins.