Samtök iðnaðarins (SI) sendu Degi B. Eggertssyni borgarstjóra bréf 11. október síðastliðinn, þar sem þau lýsa yfir áhyggjum sínum vegna háttsemi Gagnaveitu Reykjavíkur (GR), dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur (OR), og segja hana samkeppnishamlandi. OR er 95 prósent í eigu Reykjavíkurborgar.
Í bréfinu er sérstaklega vikið að því að GR skuli bræðisjóða fjarskiptalagnir innan húsa við ljósleiðarataug. Er þetta sagt fara gegn úrskurðum Póst- og fjarskiptastofnunar og úrskurðarnefndar fjarfskiptamála, en að GR hafi haldið áfram uppteknum hætti eftir þá niðurstöðu. „Þessi frágangur GR leiðir til þess að enginn þjónustuveitandi í innviðum, annar en GR, kemst að innanhússlögnum í viðkomandi húsum,“ segir í bréfi SI til borgarstjóra, og er þetta sagt hamla samkeppni og koma í veg fyrir að aðrir þjónustuveitendur á þessu sviði, komist inn á markaðinn.
Í svarbréfi sem forstjóri GR, Erling Freyr Guðmundsson, sendi í gær til Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, borgarstjóra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar, Vodafone, Símans og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, er látið að því liggja að SI séu með bréfi sínu að ganga erinda einstakra fyrirtækja á markaðnum. Hann nefnir ekki á nafn hvaða fyrirtæki það er, en segir það líklega vera Símann/Mílu, sem sé í samkeppni við Ljósleiðarann á vegum GR og markaðsráðandi.
Erling segir það vekja sérstaka athygli að bréfið sé sent til stjórnvalds sem hefur ekki beint með málið að gera. Þá er það sagt „sérkennilegt“ og í því sé ekki rétt farið með staðreyndir mála. Hann segir Ljósleiðarann, á vegum GR, hafa verið í mikilli samvinnu við fjölmarga aðila við að styrkja fjarskiptakerfi landsins og innviði á sviði netþjónustu. Þar á meðal séu rafverktakar og aðrir sem sinni iðnaði af ýmsum toga.
Í niðurlagi bréfsins segir hann að starfsfólk GR sé tilbúið að ræða við SI um það sem snýr að starfsemi félagsins, og ekki síður að hlusta eftir skýringum SI á þessu „sérkennilega“ bréfi.
Skoða má bréfaskipti SI og forstjóra GR hér meðfylgjandi.