Ný vefsíða hefur nú litið dagsins ljós sem ber nafnið Betra Ísland. Tilgangurinn er að tengja saman almenning og þingmenn, hvetja til góðrar rökræðu og að fá fólk til að tala saman og byggja upp traust. Þetta segir Róbert Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúa ses. Hann segir að það taki tíma að byggja upp vef með þessum hætti en hann sé þó að smella saman.
Vefurinn er tengdur inn á Kosningamiðstöð Kjarnans þar sem finna má hinar ýmsu upplýsingar um frambjóðendur, nýjustu kosningaspána og umfjallanir.
Píratar, Björt framtíð og Samfylking eru búin að setja stefnur flokkanna inn á vefinn og segir Róbert að til standi hjá VG og Miðflokknum að setja sínar stefnur inn seinna í dag. Vonast hann til að hinir flokkarnir fylgi á eftir.
Nýta netið til að koma hugmyndum á framfæri
Róbert segir að hugmyndin hafi komið upp og henni hrundið af stað nokkrum vikum eftir efnahagshrunið 2008. Forsprakkar hennar hafi velt því fyrir sér hvernig hægt væri að nýta netið til að koma hugmyndum frá almenningi og fólkinu í landinu til stjórnmálamanna. Útkoman hafi verið slíkur umræðuvettvangur.
Hugmyndafræði vefsins er sú sama og hjá Betri Reykjavík þar sem íbúar borgarinnar geta tekið þátt í umræðum og jafnvel haft áhrif á ákvarðanatöku stjórnmálamanna. „Við viljum gefa almenningi sterkari rödd inn í stjórnkerfinu,“ segir Róbert um tilgang vefsins. Hann bendir á að hér áður fyrr hafi fólk mætt á kjörstaði og kosið fulltrúa í fjögur ár í senn. Hann segir að þetta kerfi sé úrelt og að gott sé fyrir þjóðfélagið að almenningur komi að ákvarðanatöku í gegnum kjörtímabilið, ekki bara í kringum eða rétt fyrir kosningar.
Hugbúnaðurinn notaður um allan heim
Verkefnið er ekki nýtt af nálinni en vel hefur gengið að virkja almenning á sveitarstjórnarstiginu. Róbert segir að útgáfa af vefnum hafi verið notuð í um 20 öðrum löndum. Í Eistlandi hafi kerfið verið notað þegar forseti landsins kallaði eftir hugmyndum hvernig hægt væri að breyta lögum í landinu eftir röð skandala. Hann lagði á endanum fram fimmtán lagafrumvörp eftir hugmyndavinnu frá almenningi og sjö af þeim urðu að lögum.
Hugbúnaðurinn var einnig notaður á Möltu í kosningum síðasta sumar. Um 15 til 20 prósent íbúa á Möltu fóru á síðuna og yfir 2 prósent tóku beinan þátt í umræðum á henni.
Róbert segir að Betra Ísland byggi á opnum hugbúnaði, þ.e. hver sem er geti nýtt hann og hafi margir unnið að því í sameiningu. Hann segir að borgarar landsins vilji taka þátt í málum sem þá varða og því sem gerist í kringum þá. Þess vegna hafi íbúakosningar verið vinsælar. Mikil gróska sé í grasrótarvinnu sem þessari og áhugi. Það eigi ekki einungis við um Ísland heldur úti um allan heim, eins og sýni sig í notkun hugbúnaðarins.
Vilja fá málefnalegar umræður
Vefurinn opnaði fyrir tveimur vikum en aðstandendur hans opnuðu vef með sama sniði fyrir kosningarnar í fyrra. Að sögn Róbert gengur mun betur í ár að tengja saman frambjóðendur og almenning en um 15.000 manns hafa heimsótt vefinn síðan hann opnaði.
Vefurinn gengur út á að fólk setji inn hugmyndir og rök með og á móti. Róbert segir að rökræðurnar fari með öðrum hætti fram en til dæmis á Facebook. Ekki sé um spjallþráð að ræða og með því að biðja fólk að setja fram mótrök við hugmyndir þá náist málefnalegri umræður.
Betra Ísland skorar á öll framboð sem enn eru ekki búin að setja inn stefnur að taka þátt.