Glitnir HoldCo ehf., eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, fór á föstudaginn fram á það við sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu að lögbann verði lagt við birtingu Stundarinnar og Reykjavík Media ehf. á fréttum eða annarri umfjöllun sem byggja á eða eru unnar úr gögnum er varða einkamálefni verulegs fjölda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis. Á meðal þeirra sem fjallað hefur verið ítarlega um er Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Glitnir Holdco telur að upplýsingarnar séu bundnar bankaleynd.
Í tilkynningu segir að Glitnir hafi ráðið breska lögmannsstofu til að gæta hagsmuna sinna
vegna umfjöllunar The Guardian sem byggir á sömu gögnum.
Glitnir hafi jafnframt tilkynnt umrætt brot til Fjármálaeftirlitsins sem fer með rannsókn
málsins.
Umfjöllun Stundarinnar, Reykjavik Media og The Guardian hófst með því að sagt var frá því 6. október síðastliðinn að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði selt allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni, fyrir um 50 milljónir króna, dagana fyrir bankahrunið. Í desember í fyrra hafði Bjarni verið spurður í sjónvarpsþætti á Stöð 2 út í eign sína í Sjóði 9 og hvort hann hefði selt. Þá svaraði hann því til að hann hefði ekki átt neitt sem skipti máli í sjóðnum.
Þá hefur Stundin einnig greint frá því að gögnin sem miðillinn hafi undir höndum sýni að Bjarni hafi verið virkur þátttakandi í viðskiptum aflandsfélagsins Falson, sem hann átti hlut í.
Uppfært 17:24: Sýslumaður féllst á lögbannskröfun, að því er fram kemur í frétt RÚV.