Í tilkynningu frá Glitni Holdco ehf., sem heldur um eignir sem áður tilheyrðu slitabúi Glitnis, segir að lögbannskrafan gagnvart Stundinni, sem samþykkt var í dag, byggi á því að Glitnir hafi haft ástæðu til þess að ætla, að viðkvæm gögn um þúsundir viðskiptavina væru í höndum Stundarinnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni Holdco. Í lögbannsbeiðninni sjálfri, sem birt er hér meðfylgjandi, er meðal annars vitnað til laga um þagnarskyldu þeirra sem höndla með gögn sem þessi.
Í tilkynningu segir að horft hafi verið til þess að líkur stæðu til þess að mikið magna persónulegra gagna væri í höndum Stundarinnar. „Fyrr í dag féllst embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á beiðni Glitnis HoldCo ehf. um að lögbann yrði lagt við tilteknum fréttaflutning Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf. Nánar tiltekið var þess krafist að lögbann yrði lagt þá þegar við birtingu Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf. á öllum fréttum eða annarri umfjöllun er byggði á eða væri unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum Glitnis HoldCo ehf. sem bundnar væru bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Nefnd krafa var lögð fram þar sem Glitnir HoldCo ehf. taldi yfirgnæfandi líkur á því að umfjöllun umræddra fréttamiðla byggði á gífurlegu magni gagna sem innihéldi upplýsingar um persónulega fjárhagsmálefni þúsunda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis HoldCo ehf. Stjórn Glitnis HoldCo ehf. taldi því nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að gæta hagsmuna sinna viðskiptavina,“ segir í tilkynningunni frá Glitni Holdco.
Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra Stundarinnar, var afar ósáttur við lögbannið sem sett hefur verið á fréttaflutning fjölmiðilsins upp úr gögnum frá Glitni er varða viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans í aðdraganda bankahrunsins. Það var sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem samþykkti lögbannið.
Hann segir að lögbannið taki til þess, að Stundin megi ekki vinna fréttir upp úr gögnunum og geti því ekki birt frekari fréttir um mál, þar til réttaróvissu um heimild til þess hefur verið eytt.
Málið er nú á leiðinni fyrir dómstóla, en að sögn Jón Trausta hefur Glitnir Holdco ehf., eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, viku til þess að rökstyðja lögbannið fyrir dómstól og leggja fram stefnu máli sínu til stuðnings.
Ljóst sé að niðurstaða muni ekki fást í málið fyrr en eftir kosningarnar 28. október, næstkomandi.