Alls segjast 39,4 prósent landsmanna vera fylgjandi upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi í stað íslensku krónunnar, en 43,3 prósent eru á móti því. Þá segjast 17,3 prósent ekki taka afstöðu til málsins. Þetta kemur fram í nýlegri könnun sem Gallup vann fyrir Já Ísland. Stuðningurinn við upptöku evru er mestur hjá kjósendum Pírata (86 prósent) en minnstur hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins (16 prósent).
Athygli vekur að fleiri kjósendur Vinstri grænna eru hlynntir upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi í stað íslensku krónunnar en eru á móti því. Alls segjast 40 prósent kjósenda þess flokks sem mælist að jafnaði stærstur á landinu í skoðanakönnunum vera fylgjandi upptöku evru en 31 prósent eru andvígir því. 29 prósent kjósenda Vinstri grænna segjast ekki hafa skoðun á málinu.
Kjósendur Samfylkingar (79 prósent) og annarra óskilgreindra flokka (64 prósent) í könnuninni, sem eru að öllum líkindum Viðreisn og Björt framtíð, eru líka mun meira fylgjandi upptöku evru en á móti því. Kjósendur Framsóknarflokksins (24 prósent) og Flokks fólksins (32 prósent) eru hins vegar mjög bersýnilega frekar á móti slíkri upptöku en fylgjandi henni.
Meiri menntun og hærri tekjur þýða meiri vilja til að taka upp evru
Líkt og varðandi aðild að Evrópusambandinu þá er skýr munur á afstöðu milli kynja, aldurshópa, eftir búsetu, tekjum og menntun. Þannig eru til að mynda 52 prósent þeirra sem eru með fjölskyldutekjur yfir einni milljón króna á mánuði fylgjandi upptöku evru en einungis 26 prósent þeirra sem eru með fjölskyldutekjur á bilinu 400 til 549 þúsund krónur á mánuði. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir menntun kemur í ljóst að 49 prósent þeirra sem eru með háskólapróf eru fylgjandi upptöku evru en 34 prósent á móti. Hjá þeim sem eru einungis með grunnskólapróf snýst dæmið algjörlega við. Þar eru 29 prósent fylgjandi upptöku evru en 54 prósent á móti.
Stuðningur við upptöku evru er áberandi mestur í Reykjavík þar sem umtalsverður meirihluti vill taka hana. Dæmið snýst aftur algjörlega við þegar horft er á niðurstöður úr könnuninni á landsbyggðinni. Utan höfuðborgarsvæðisins er annar hver maður alfarið á móti upptöku evru en einungis 31 prósent fylgjandi henni. Þá eru karlar mun jákvæðari gagnvart upptöku evru en konur.
Nær ómögulegt að taka upp evru einhliða
Evrópusambandið hefur tekið það skýrt fram að einhliða upptaka evrunnar yrði aldrei með þeirra samþykki og að upptaka hennar yrði aldrei leyfð fyrr en eftir aðild að sambandinu og að samleitnisskilyrðum uppfylltum. Seðlabanki Íslands hefur auk þess komist að þeirri niðurstöðu, í ítarlegri skýrslu um möguleika Íslands í gjaldmiðlamálum sem birt var 2012, að í raun séu raunhæfir valkostir hvað varðar gjaldmiðil einungis tveir: íslensk króna eða upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu.
Könnunin var unnin fyrir Já Ísland og var framkvæmd 11-24. september síðastliðinn. Um var að ræða netkönnun og úrtakið var 1.435 manns um allt land. Allir þátttakendur voru 18 ára og eldri og voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 59,5 prósent.