Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst nú síðdegis á kröfu þrotabús Glitnis um að lögbann yrði sett á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media, sem byggir á gögnum innan úr fallna bankanum.
Þetta staðfestir Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnis HoldCo, í samtali við RÚV sem birtir myndir af ritstjórnarskrifstofu Stundarinnar, eftir að lögbannskrafan hafði verið samþykkt.
Fulltrúar sýslumannsembættisins og Glitnis voru þá á skrifstofu Stundarinnar.
Í fréttatilkynningu sem Glitnir sendi frá sér fyrr í dag, og fjallað var um á vef Kjarnans, segir að lögbannskrafan hafi verið lögð fram hjá sýslumanni á föstudag.
Þar sagði einnig Fjármálaeftirlitinu hefði verið tilkynnt um brot á bankaleynd með fréttaflutningnum, og að Glitnir hefði ráðið lögmannsstofu í Bretlandi til að gæta hagsmuna sinna gagnvart fjölmiðlinum The Guardian, sem hefur fjallað um gögnin í samvinnu við Stundina og Reykjavík Media.
Samkvæmt sem segir í frétt RÚV, þá var kröfu um haldlagningu á gögnum, sem Stundin hefur byggt fréttir sínar um fjármál forsætisráðherra á, vísað frá. Þá var einnig fallið frá kröfu um að umfjöllun yrði fjarlægð af vefnum.
Stundin hefur undanfarna daga fjallað ítarlega um fjárfestingar og fjármála Bjarna Benediktssonar, starfandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, á tímanum í kringum hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Er meðal annars vitnað til ganga sem Stundin hefur unnið úr, í samstarfi við The Guardian og Reykjavík Media að hluta, eins og áður segir.