Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir að henni finnist ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Morgunblaðinu í dag.
Notkun gagna sem fjölmiðlar komust yfir í óþökk þeirra sem þau eiga hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarna viku eftir að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkti lögbann á notkun Stundarinnar og Reykjavík Media á gögnum úr gamla Glitni. Lögbannið hefur verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af fulltrúa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um frelsi fjölmiðla. Hann hvatti íslensk stjórnvöld til að aflétta því. Fulltrúar flesta stjórnmálaflokka á Íslandi hafa annað hvort fordæmt lögbannið eða gagnrýnt það mjög harkalega og Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna hafa gert það sömuleiðis. Þá sendi Rithöfundasamband Íslands frá sér ályktun vegna lögbannsins og það sama gerðu PEN á Íslandi, samtök rithöfunda, þýðenda og ritstjóra. Þá sendu Gagnsæi, samtök gegn spillingu, frá sér harðorða tilkynningu þar sem lögbannið er fordæmt.
Biskup Íslands segir við Morgunblaðið að siðbót í íslensku samfélagið ætti að felast í endurnýjun á þeim gildum sem Íslendingar hafi reitt sig á í aldanna rás og hafi verið siðferðilegur grunnur lífsviðhorfa landsmanna um langt skeið, og á þar við trúna og fylgifiska hennar. „Ein leið til að komast að rót vandans er að greina hann, draga sannleikann fram í hverju máli og núllstilla hlutina[...]Ég er ekki sammála því að allt sé leyfilegt í sannleiksleitinni. Mér finnst til dæmis ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós. Við þurfum að byrja upp á nýtt með sannleikann að leiðarljósi og þá eru trúmennska, virðing og kærleikur ekki langt undan í þeirri vegferð. Umræðan um nýja stjórnarskrá er hluti af þrá fólks eftir traustari grunni til að standa á, líka í siðferðislegum efnum. Og til þess að aftur skapist nauðsynlegt traust í samfélaginu hefur kirkjan hlutverki að gegna. Trú er traust, sem verður ekki endurheimt nema við berum virðingu fyrir hvert öðru og sjálfum okkur.“
Hún segist óttast að alþingiskosningarnar um komandi helgi skili Íslendingum ekki einhverju nýju „nema menn átti sig á því að það þarf að taka sinnaskiptum[...]Það er ekki nóg að stjórnarsáttmálinn fjalli um aðgerðir í einstaka málaflokkum, svo sem fjármálum og húsnæðismálum. Það þyrfti að byrja umræðuna varðandi stjórnarsamstarf á því að spyrja á hvaða siðferðilega grunni ætlum við að standa. Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað má útfæra aðgerðir.“