Mikill meirihluti Íslendinga hefur miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum í heiminum ef marka má könnun Gallup sem gerð var fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands.
Spurt var: „Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af loftslagsbreytingum í heiminum?“ Samtals sögðust 69,2 prósent svarenda hafa miklar áhyggjur, 21,6 prósent sagðist hvorki hafa miklar áhyggjur né litlar og 9,1 prósent sagðist hafa litlar áhyggjur.
Heildarniðurstöður
Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af loftslagsbreytingum í heiminum?
Konur hafa frekar áhyggjur af loftslagsbreytingum en karlar. 73 prósent kvenna höfðu miklar áhyggjur og 65 prósent karla.
Þá er mikill munur á afstöðu fólks eftir aldri. Þeir sem falla í yngsta aldurshópinn, 18 til 24 ára, hafa mun meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en þeir sem eldri eru. 81 prósent yngsta fólksins sem tók þátt í könnuninni hefur miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum og 19 prósent þeirra segjast hvorki hafa miklar né litlar áhyggjur.
Einnig er marktækur munur á svörum eftir búsetu fólks. Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru líklegri til þess að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum en þeir sem búa í öðrum sveitarfélögum.
Kjósendur B, D og M hafa minnstar áhyggjur
Þegar svör þátttakenda voru sett í samhengi við hvað fólk sagðist ætla að kjósa kom í ljós að kjósendur Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins hafa minni áhyggjur af loftslagsbreytingum en kjósendur annarra flokka.
Svör þeirra sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn
Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af loftslagsbreytingum í heiminum?
45 prósent þeirra sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn sögðust hafa miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum. 46 prósent kjósenda Miðflokksins sögðu það sama, þó hlutfall Miðflokkskjósenda sem sögðust hafa miklar áhyggjur var aðeins sex prósent. 58 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins segjast hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum.
Svör þeirra sem ætla að kjósa Miðflokkinn
Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af loftslagsbreytingum í heiminum?
Svör þeirra sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn
Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af loftslagsbreytingum í heiminum?
Sé þetta sett í samhengi við afstöðu kjósenda annarra flokka kemur í ljós nokkur munur. Til dæmis segjast 88 prósent kjósenda Samfylkingarinnar hafa miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum. Svipaða sögu má segja af kjósendum Vinstri grænna. 81 prósent þeirra segjast hafa miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum.
Svör þeirra sem ætla að kjósa Samfylkinguna
Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af loftslagsbreytingum í heiminum?
Svör þeirra sem ætla að kjósa Vinstri græn
Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af loftslagsbreytingum í heiminum?
96 prósent þeirra sem hafa miklar áhyggjur af loftslagsmálum segja stefnu stjórnmálaflokka í loftslagsmálum skipta miklu máli þegar ákveðið er hvaða stjórnmálaflokk það mun kjósa í Alþingiskosningunum.
Könnunin var gerð dagana 11. til 20. október síðastliðinn. Fjöldi svarenda var 756 manns úr úrtaki 1.402. Þátttökuhlutfallið var þess vegna 53,9 prósent. Niðurstöður könnunarinnar má finna á vef Náttúruverndarsamtaka Íslands.