Björn Ingi Björnsson, yfirmatreiðslumaður á Nauthóli, segir í tilkynningu að sú ákvörðun Útlendingastofnunar, að vísa Chuong Le Bui, matreiðslunema frá Víetnam, úr landi sé „fráleit“ og í mótsögn við þá miklu þörf sem sé fyrir faglært matreiðslufólk á Íslandi.
Hún er sögð niðurbrotin vegna málsins, og segir Björn það óásættanlegt að henni verði vísað úr landi.
Í tilkynningu, þar sem hann rekur mál hennar ítarlega, segir hann að hún sé efnilegasti nemi sem hann sé með í vinnu. Hann segir ákvörðunina undarlega þar sem nánast ómögulegt sé að fá inn faglært starfsfólk inn í matreiðslugeirann þessi misserin. Því skjóti það skökku við að vísa henni úr landi, í miðju námi.
Hún er hálfnuð með lögbundinn námstíma í matreiðslutíma, en eftir lagabreytingu Alþingis um síðustu áramót, þá fær hún ekki námsmannadvalarleyfi þar sem hún er í skilgreindu iðnnámi en ekki háskólanámi eins og lögin gera ráð fyrir. Chuong á skyldmenni hér á landi og hefur því gott bakland á Íslandi og Inga Lillý Brynjólfdóttir lögfræðingur hefur verið að vinna í hennar máli og hefur kært þessa ákvörðun útlendingastofnunnar. „Lögunum var breytt um síðustu áramót án þess að Iðan, Matvís eða aðrir fagaðilar sem koma að iðnmenntun hefðu verið látnir vita og iðnmenntun var hent út sem ástæðu fyrir námsmannadvalarleyfi. Það er algjörlega út í hött að einhver sé búin að eyða 2 árum í nám og svo sé henni hent úr landi án þess að fá að klára námið sitt . Sérstaklega þar sem hún er nemi í grein þar sem sárvantar fagmenn. Hún er okkar besti nemi að öðrum ólöstuðum og nokkuð ljóst að hér er á ferðinni efni í frábæra matreiðslukonu. Mér finnst þessi ákvörðun útlendingastofnunnar fráleit og sérstaklega í ljósi þess að Chuong hafði í febrúar fengið framlengingu á námsmannaleyfinu sínu en núna á að senda hana heim. Í febrúar var búið að breyta þessum lögum en þá fær hún samt dvalarleyfi en nú í haust þá er það afturkallað . Ég get ekki túlkað þessi lög öðruvísi en að þau gengisfella okkar iðnmenntun eins og hún sé minna virði en háskólagráður og ég hallast helst að og í raun vona að hér sé um einhvers konar mistök við lagabreytingu að ræða. Mistök sem eru samt grafalvarleg eins og sjá má á þessu máli og geta haft gríðarlegar afleiðingar fyrir fólk sem hefur hafið nám sitt hér með réttmætar væntingar um að fá að ljúka því. Þarna er verið að neyða þessa ungu hæfileikaríku konu til að kasta tveimur árum af ævi sinni út um gluggann. Tveimur árum þar sem hún hefur lagt mjög hart að sér við að ná sínum markmiðum og uppfylla sinn draum um að verða matreiðslukona,“ segir Björn í tilkynningu sinni.
Hann segir enn fremur að það sé erfitt að verða matreiðslumaður og það kosti mikla vinnu að byggja upp þekkingu í faginu. Ekki síst þess vegna þess ákvörðunin undarleg, og algjörlega á skjön við þörfina í íslensku atvinnulífi. „Það vita allir sem það hafa reynt að það að læra að vera alvöru matreiðslumaður kostar blóð,svita og tár. Starfsnámið er mjög erfitt og krefjandi og margir sem hefja það gefast upp. Svo ekki sé minnst á að Chuong hefur ekki íslensku sem móðurmál og hefur sótt námskeið utan vinnu til að fá betri grunn fyrir bókleganámið sem fer allt fram á íslensku. Stundar hún námið sitt af alúð samkvæmt upplýsingum frá Menntaskólanum í Kópavogi þar sem hún er nú á sinni fyrstu önn. Hún mætir vel og er til fyrirmyndar enda afar einbeitt í sínu námi. Mér finnst undarlegt í ljósi þess að nánast er ómögulegt að fá inn faglærða starfsmenn í þessa grein að okkur sé nú gert að rifta lögbundnum námssamningi sem við gerðum til 4 ára og um leið missa frábæran starfskraft sem dýrmætur tími og vinna hefur farið í að þjálfa og kenna eins og okkur er skylt að gera þegar einhver skráir sig í starfsnám hjá okkur. Við á Nauthól leggjum mikinn metnað í að útskrifa topp fagmenn frá okkur sem hafa víðtæka reynslu og eru tilbúnir í öll þau verk sem faglærður matreiðslumaður þarf að kunna. Hefur Chuong staðist allar okkar kröfur og væntingar um góða starfshætti og vinnubrögð. Hún er okkar efnilegasti nemi og á framtíðina fyrir sér í þessu fagi og því er það glapræði að það skuli vera eyðilagt með þessari brottvísun og með þessum óréttláta hætti,“ segir Björn.