Mennta- og menningarmálaráðuneytið ákvað að veita fjölmiðlanefnd fjórar milljónir króna í sérstaka fjárveitingu í maí 2016 til að standa straum af kostnaði við fjölmiðlarannsóknir. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ráðuneytið hefur veitt slíkan styrk. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Fjölmiðlanefnd hafði frjálsar hendur varðandi framkvæmd og efni viðkomandi fjölmiðlarannsókna og tók ákvörðun um að láta gera tvær greiningar. Önnur, sem Gallup var fengin til að gera, var á viðhorfi almennings til hlutlægni í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins (RÚV) og hin var á fréttaumfjöllun RÚV í aðdraganda Alþingiskosninga 2016.
Ákvörðun um hvað var ákveðið að greina var tekin af fjölmiðlanefndinni, ekki starfsmönnum hennar. Í henni sátu á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin þau Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður, Hulda Árnadóttir, varaformaður, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Arna Schram og Salvör Nordal. Samkvæmt upplýsingum frá Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, var búið að ræða möguleikann á umræddri fjárveitingu fyrr á árinu 2016.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið er með það til athugunar hvort og hvernig væri best að standa að rannsóknum á þessu sviði til framtíðar.
Framkvæmd örfáum vikum eftir Panamaskjölin
Í kjölfar þess að niðurstaða greininganna voru gerðar opinberar í vikunni sendi RÚV frá sér yfirlýsingu þar sem stofnunin gerði alvarlegar athugasemdir við þær. Í frétt á vef RÚV sagði að rangfærslur í talningu og sú grunnforsenda úttektarinnar að sniðganga hina eiginlegu kosningaumfjöllun RÚV rýri gildið verulega. „Fjölmiðlanefnd hefur birt könnun um viðhorf almennings til hlutlægni í fréttaflutningi vorið 2016 og greiningu á kosningaumfjöllun RÚV í aðdraganda Alþingiskosninga 2016. Ríkisútvarpið fékk kannanirnar til umsagnar og gerði alvarlegar athugasemdir við þær báðar. Þrátt fyrir það hefur fjölmiðlanefnd nú ákveðið að birta þær. Ríkisútvarpið birtir því athugasemdir sínar“.
Afstaða fór eftir stjórnmálaskoðunum
Helstu niðurstöður könnunar Gallup á viðhorfi almennings gagnvart hlutlægni í fréttaflutningi RÚV var sú 66,5 prósent aðspurðra sögðust telja RÚV almennt hlutlaust í fréttum og fréttatengdu efni sínu. Alls sögðust 33,5 prósent telja að RÚV væri hlutdrægt og þar af sagðist 5,5 prósent telja að RÚV væri að öllu leyti hlutdrægt í fréttum og fréttatengdu efni sínu.
Mikill meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks töldu hins vegar að RÚV væri hlutdrægt í fréttaflutningi sínum. Alls sögðust sjö af hverjum tíu Sjálfstæðismönnum og tæplega sjö af hverjum tíu Framsóknarmönnum að þeir hefðu þá skoðun. Hjá kjósendum allra annarra stjórnmálaflokka var yfirgnæfandi hluti kjósenda, oftast vel yfir 90 prósent, þeirrar skoðunar að RÚV gæti hlutleysis.
Greining Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo var á fréttaumfjöllun RÚV í aðdraganda Alþingiskosninga 2013 og 2016. Niðurstaða hennar vegna kosninganna í fyrra var meðal annars sú að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkar hafi fengið mesta fréttaumfjöllun og að 88 prósent allra frétta sem sagðar voru af stjórnmálaflokkum í hafi hvorki flokkast sem jákvæðar né neikvæðar. Um níu prósent þeirra töldust jákvæðar en þrjú prósent neikvæðar.