Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru síst líklegir til að sjá spillingu og síður líklegir til að sjá hana en kjósendur Bjartrar Framtíðar, Samfylkingar, Vinstri Grænna og Pírata. Kjósendur Pírata eru líklegastir til að sjá spillingu.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigrúnar Ólafsdóttur, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Sigrún bendir á að samkvæmt alþjóðlegri viðhorfakönnunin, sem síðast var lögð fyrir á vormánuðum 2017, komi fram að langflestir Íslendingar sjái einhverja spillingu meðal stjórnmálamanna og verulegur hluti telur að hún sé mjög mikil. Einungis 7 prósent telji nánast enga stjórnmálamenn viðriðna spillingu, 21 prósent telji að það séu fáeinir, 38 prósent nokkrir, 29 prósent margir og 5 prósent nánast allir.
Á myndinni hér að neðan eru teknir saman þeir sem telja að margir eða nánast allir stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu og skoðað hversu líklegir svarendur eru til að telja að að margir eða nánast allir stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu eftir því hvaða flokk svarendur kusu 2016.
Í grein Sigrúnar kemur fram að þannig séu 18 prósent líkur á að kjósandi Sjálfstæðisflokks telji marga eða nánast alla stjórnmálamenn viðriðna spillingu, um fjórðungur kjósenda Framsóknar og Viðreisnar, 35 prósent kjósenda Bjartrar Framtíðar og Samfylkingar, 40 prósent kjósenda Vinstri Grænna og nær helmingur kjósenda Pírata.
„Ef við bætum við þeim sem svara að nokkrir séu viðriðnir spillingu kemur í ljós að á bilinu 75 til 88 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Vinstri Grænna og Pírata telja að nokkrir, margir, eða nánast allir stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu,“ segir Sigrún.
Hrunið hefur haft langvarandi áhrif á viðhorf Íslendinga
Einnig kemur fram í greininni að Hrunið hefur haft langvarandi áhrif á viðhorf Íslendinga. Árið 2003 taldi innan við þriðjungur svarenda að spilling væri frekar eða mjög útbreidd en sex árum seinna, í kjölfar Hrunsins, sé það hlutfall komið í 77 prósent og sé síðan örlítið hærra strax í kjölfar Panamamótmælanna 2016.
Nýjustu mælingarnar á vormánuðum 2017 sýni að eitthvað hefur dregið úr hlutfalli þeirra sem telja spillingu frekar eða mjög útbreidda, en sé samt mun hærri en við sáum fyrir tæpum 15 árum. Því bendi gögnin til þess að áhyggjur um spillingu séu mun útbreiddari eftir Hrun, óháð því hvort umræðan á hverjum tíma sé sérstaklega um spillingu eins og í kjölfar Panamamótmælanna eða þegar engin áberandi umræða er um slík mál eins og á vormánuðum 2017.