Síðustu leiðtogaumræðurnar á RÚV fyrir kosningarnar á morgun, einkenndust ekki síst af mikilli spennu, þar sem leiðtogar mátuðu hugmyndir sínar til hægri og vinstri.
Í sjónvarpssal voru Björt Ólafsdóttir, frá Bjartri framtíð, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrir Pírata, og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Í umræðunum var farið um víðan völl, þar sem Einar Þorsteinsson og Þóra Arnórsdóttir, fréttamenn RÚV, spurðu leiðtogana spjörunum úr.
Málefnaáherslur flokkanna voru í brennidepli.
Enginn leiðtogana útilokaði samstarf eftir kosningar, og töluðu leiðtogarnir allir fyrir mikilvægi þess að sýna samstöðu og samstarfsvilja.
Samkvæmt nýjustu kosningaspánni hefur Sjálfstæðisflokkurinn töluvert forskot í könnunum, en útlit er fyrir spennandi kosningar, þar sem erfitt er að ráða í hvernig landið liggur eftir að niðurstaðan er ljós. Fylgið við Sjálfstæðisflokkinn er tæplega 25 prósent, samkvæmt spánni, en Vinstri græn koma næst með 19 prósent.
Samkvæmt þingsætaspánni er ljóst að miklar breytingar eru í kortunum, þar sem í það minnsta þrír ráðherrar eiga á hættu að detta út af þingi, og það sama má segja um forseta Alþingis, Unni Brá Konráðsdóttur, sem er í fjórða sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.