Gera má ráð fyrir að kostnaður vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði yrði 15.921 milljónir króna ef ekki yrði um að ræða hámarksgreiðslu úr sjóðnum. Samkvæmt fjárlagatölum árið 2017 verður heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra 10.355,8 milljónir króna.
Þetta kemur fram í svari Þorsteins Víglundssonar, starfandi félags- og jafnréttismálaráðherra, við fyrirspurn frá Evu Pandoru Baldursdóttur, fyrrverandi þingmanns Pírata, um fæðingarorlof þann 26. október síðastliðinn.
Rúmir 133 milljarðar hafa farið í fæðingarorlof frá árinu 2001. Eva Pandora spurði hver árlegur heildarkosnaður fyrir fæðingarorlof hafi verið á árunum 2000 til 2017 og hver hann myndi vera ef tekjuþakið yrði afnumið. Einnig spurði hún hver heildarkostnaðurinn yrði ef tekjuþakið yrði hækkað um 20 og 50 prósent.
Myndi hækka um 5,1 milljarð ef hámarksgreiðslan yrði hækkuð um 50%
Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 15. október 2016 eða síðar er 500.000 krónur á mánuði. Ef tekjuþak yrði hækkað um 20 prósent má gera ráð fyrir að heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra yrði 15.004 milljónir króna ef hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði yrði hækkuð í 600.000 krónur á mánuði. Þarna er einnig miðað við fjárlög árið 2017.
Í svarinu kemur fram að verði hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði hækkuð um 50 prósent verði hún 750.000 krónur á mánuði til foreldra í fæðingarorlofi. Sé miðað við slíka hækkun megi gera ráð fyrir að kostnaður vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði yrði 14.655 milljónir króna, eða 6.031 milljónir króna vegna feðra og 8.624 milljónir króna vegna mæðra. Sé jafnframt miðað við fjárlög fyrir árið 2017 hvað varðar kostnað vegna fæðingarstyrkja á árinu megi gera ráð fyrir að heildarkostnaður vegna fæðingarorlofs foreldra yrði 15.436 milljónir króna ef hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði yrði hækkuð í 750.000 krónur á mánuði.
Feður fengu fyrst þrjá mánuði árið 2003
Einnig kemur fram í svarinu að þegar heildarkostnaður við fæðingarorlof er tekinn saman fyrir árin 2000 til 2017 ber að hafa í huga að sjálfstæður réttur feðra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem og fæðingarstyrks var innleiddur í áföngum í lögum um fæðingar- og foreldraorlof.
Þannig fengu feður sjálfstæðan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks í einn mánuð vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2001. Um var að ræða tvo mánuði vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2002 og þrjá mánuði vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2003.
Ekkert hámark fyrir árið 2005
Í svarinu kemur enn fremur fram að það beri að hafa í huga þegar heildarkostnaður við fæðingarorlof er tekinn saman fyrir árin 2000 til 2017 að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið misháar á umræddu tímabili auk þess sem fjárhæð fæðingarstyrks tók breytingum á tímabilinu.
Þá hafi ekki verið um að ræða tiltekið hámark á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þegar lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi 1. janúar 2001 en slíkt hámark tók í fyrsta skipti gildi hvað varðar foreldra barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2005 eða síðar.