Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trumps, hefur verið úrskurðaður í stofufangelsi. Alríkisdómari í Washington komst að þessu, en eins og greint var frá í gær þá hefur Manafort verið ákærður fyrir samsæri gegn bandarískum stjórnvöldum og peningaþvætti.
Tryggingajaldið fyrir Manafort, eða lausnargjald, var ákveðið tíu milljónir Bandaríkjadala. Rick Gates, viðskiptafélagi Manaforts, var líka úrskurðaður í stofufangelsi og tryggingargjald hans ákveðið fimm milljónir Bandaríkjadala.
Þetta eru fyrstu ákærur Roberts Muellers, síðan hann tók við rannsókn á tengslum Rússa við framboð Trumps, og einnig hvort rússnesk yfirvöld hafi verið að skipta sér af kosningunum í Bandaríkjunum með einhverjum hætti.
Sorry, but this is years ago, before Paul Manafort was part of the Trump campaign. But why aren't Crooked Hillary & the Dems the focus?????
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 30, 2017
Þeir voru ákærðir fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum og peningaþvætti. Meðal annars snúa ákærurnar að því að að Manafort hafi nýtt aflandsfélög og leynilega reikninga til að kaupa þjónustu og lifa hátt.
Meðal annars er þeim Manafort og Gates gefið að sök að hafa þegið greiðslur frá Viktor Janúkovitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, en hann var þá í góðu pólitísku sambandi við Rússland og yfirvöld í Kreml.
George Papadopolous, ráðgjafi Trumps í utanríkismálum í kosningabaráttunni, viðurkenndi fyrir rannsóknarmönnum Muellers að hafa sagt ósatt við yfirheyrslur hjá FBI, um samskipti sín við breskan prófessor sem hann taldi hafa tengsl við rússnesk yfirvöld. Enn fremur játaði hann að hafa reynt að koma á samskiptum við rússnesk yfirvöld.