Tólf starfsmenn þriggja fjölmiðla hafa verið boðaðir til skýrslutöku hjá Héraðssaksóknara vegna rannsóknar embættisins á gagnaleka úr Glitni. Þetta eru starfsmenn Ríkisútvarpsins, Stundarinnar og 365 miðla. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Í fréttinni kemur fram að embætti Héraðssaksóknara rannsaki gagnaleka úr Glitni á grundvelli tveggja kæra sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt fram. Fyrri kæran sé frá því í febrúar og tilkomin vegna umfjöllunar Kastljóss og fjölmiðla 365 um viðskipti og hlutabréfaeign hæstaréttardómara fyrir hrun. Seinni kæruna lagði FME fram eftir að Stundin og RÚV fóru að fjalla um viðskipti forsætisráðherra og fólks sem hann tengdist sem áttu sér stað fyrir hrun. Héraðssaksóknari sagði í samtali við RÚV í síðasta mánuði að málin yrðu að öllum líkindum sameinuð.
Kjarninn hefur fjallað um svokölluð Glitnisgögn en í gær barst Kjarnanum bréf frá Ólafi Eiríkssyni, lögmanni hjá LOGOS lögmannsstofu, fyrir hönd Glitnis HoldCo, eignarhaldsfélags utan um eftirstandandi eignir Glitnis banka. Í bréfinu er því haldið fram að óheimilt sé að birta gögn eða upplýsingar úr gögnum sem Kjarninn byggði á í fréttaskýringu sem birt var í fyrradag, með fyrirsögninni „Að vera eða vera ekki innherji“. Ólafur segir í bréfinu að umbjóðandi hans telji birtingu fréttaskýringarinnar vera ólögmæta og brjóta í bága við þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki.
Fréttastofa RÚV fékk samskonar bréf í síðasta mánuði eftir umfjöllun sína um viðskipti forsætisráðherra fyrir hrun. Í báðum bréfum segir að Glitnir HoldCo áskilji sér rétt til að grípa til aðgerða vegna birtinga sem byggi á gögnum úr Glitni.
Héraðssaksóknari segist, í samtali við RÚV, ekki geta tjáð sig um rannsóknina að öðru leyti en því að hún er í gangi. Fréttastofan hefur þó upplýsingar um að allavega tólf fjölmiðlamenn hafa verið boðaðir til skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara. Sumir eru búnir í skýrslutökum en aðrir hafa verið boðaðir til skýrslutöku á næstunni. Þetta eru fjórir starfsmenn fréttastofu RÚV, fimm starfsmenn fjölmiðla 365 og þrír starfsmenn Stundarinnar.
Glitnir HoldCo, þrotabú Glitnis, fékk í síðasta mánuði samþykkt lögbann á fréttaflutning Stundarinnar sem byggir á gögnum úr Glitni. Staðfestingarmál Glitnis gegn Stundinni vegna lögbannsins var þingfest í vikunni.