Flugfélagið WOW Air, sem hefur vaxið jafnt og þétt samhliða auknum umsvifum ferðaþjónustunnar hér á landi á undanförnum árum, er nú með það til skoðunar að skrá félagið á markað árið 2019, að því er fram kemur í frétt Reuters í dag, og New York Times vitnar til á vef sínum.
Skúli Mogensen, forstjóri, stofnandi og eigandi WOW Air, segir að áætlanir geri ráð fyrir að tekjur félagsins verði orðnar um einn milljarður Bandaríkjadala árlega, árið 2019. Þá sé félagið búið að ná þeirri stærð sem geri skráningu á markað ákjósanlegan valkost.
Skúli segir að félagið þurfi að taka stefnumarkandi ákvörðun um hvernig það vex, og í samvinnu við hvaða aðila, en slíkar ákvarðanir hafi í raun ekki verið teknar.
Hagnaður af rekstri WOW Air samstæðunnar nam 4,3 milljörðum króna á árinu 2016 samkvæmt rekstrarreikningi.
Eigið fé samstæðunnar í árslok 2016 nam 5,9 milljörðum króna en glögglega má sjá á reikningi samstæðunnar að umfang rekstursins jókst mikið milli ára.
Á árinu 2016 flaug félagið til alls 29 áfangastaða þegar mest var með tólf flugvélar í fullum flugrekstri. Af 29 áfangastöðum jók samstæðan flug til Bandaríkjanna úr tveimur í fimm áfangastaði og hóf beint flug til Los Angeles og San Francisco.
Mikil breyting varð á rekstri félagsins á árinu 2016 miðað við árið 2015. Þannig jukust tekjur af flugrekstri um tæplega 20 milljarða króna.
Árið 2015 voru tekjurnar 16,6 milljarðar króna en í fyrra voru þær 35,7 milljarðar króna.
Gangi áformin eftir um að hækka tekjurnar upp í einn milljarð Bandaríkjadala, eða sem nemur um 105 milljarða króna, árið 2019, þá þarf augljóslega margt að ganga upp og vöxturinn þarf að stigmagnast frá því sem verið hefur hingað til.