Fjármálaeftirlitið (FME) hefur hafið nánari athugun á mótaðilaáhættu íslenskra færsluhirðingarfyrirtækja í kjölfar þess að Kortaþjónustan tapaði öllu eiginfé sínu vegna greiðslustöðvunar flugfélagsins Monarch.
Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag, og segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, að Kortaþjónustan haldi nú lengur eftir fyrirframgreiðslum viðskiptavina. en það gerði áður.
Eins og greint var frá í vikunni, þá er Kvika nú orðin eigandi að 40 prósent hlutafjár í Kortaþjónustunni.
Kvika, ásamt hópi fjárfesta hefur keypt allt hlutafé í Kortaþjónustunni hf. (Korta) og leitt hlutafjáraukningu í félaginu. Eignarhluti Kviku verður rúmlega 40% eftir viðskiptin en aðrir hluthafar munu eiga undir 10% hlut hver í Korta.
Í tilkynningu vegna viðskiptanna segir að Korta sjái um greiðslumiðlun fyrir um 2.400 fyrirtæki innanlands og utan. Félagið, sem stofnað var árið 2002, hefur vaxið hratt undanfarin ár og eru starfsmenn þess um 60 talsins. Korta fékk leyfi sem greiðslustofnun frá Fjármálaeftirlitinu árið 2012 og varð í kjölfarið fullgildur aðili að VISA Europe og MasterCard International, segir í tilkynningunni.