Eigendur 365 miðla þurfa að selja annað hvort Fréttablaðið eða hlut sinn í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone á Íslandi, innan 30 mánaða frá því að sátt við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa Fjarskipta á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla var undirrituð. Skrifað var undir hana 8. október síðastliðinn og því hafa eigendur 365 miðla nú 29 mánuði til að losa um aðra hvora eignina.
Langstærsti eigandi 365 miðla er Ingibjörg S. Pálmadóttir. Samanlagt eiga félög á vegum hennar 74,3 prósent eignarhlut í fyrirtækinu. Áður en Ingibjörg varð aðaleigandi 365 miðla var það að mestu í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eiginmanns hennar.
Sátt um rof á eigendatengslum
Um miðjan mars 2017 var skrifað undir kaup Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildu Fréttablaðinu og tímaritinu Glamour.
Þeir miðlar sem selja átti yfir frá 365 miðlum voru Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, útvarpsrekstur fyrirtækisins (t.d. Bylgjan, X-ið og FM957) og fréttavefurinn Vísir.is. Fréttastofa 365 fylgdi með í kaupunum, en hún er ein stærsta fréttastofa landsins og sú eina sem heldur úti daglegum sjónvarpsfréttatíma utan fréttastofu RÚV. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Kaupverðið var á bilinu 7.725-7.875 milljónir króna. Það átti að greiðast í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum.
Miðað við það hlutafé sem átti að skipta um hendur lá fyrir að félög í eigu Ingibjargar S. Pálmadóttur yrðu stærsti einstaki einkafjárfestirinn í Fjarskiptum eftir að viðskiptin yrðu frágengin, með um átta prósent beinan eignarhlut í félaginu, sem er skráð í Kauphöll.
Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna Fjarskipta og flestra miðla 365 með skilyrðum í byrjun október síðastliðins. Til stendur að hinar keyptu eignir færist yfir til Fjarskipta 1. desember næstkomandi.
Samstarf milli Fréttablaðs og Vísis stytt
Í tengslum við samrunann var líka gerður samstarfssamningur milli 365 miðlar og Fjarskipta . Í honum fólst að efni Fréttablaðsins, sem er ekki hluti af kaupunum,ætti áfram birtast á Vísi.is í 44 mánuði eftir að kaupin ganga í gegn. Það þýddi að Vísir.is, sem verður þá í eigu Fjarskipta, myndi geta birt allt efni Fréttablaðsins að morgni í tæp fjögur ár þrátt fyrir að fjölmiðlarnir verði ekki lengur í eigu sama aðila.
Þegar samruninn var samþykktur af Samkeppniseftirlitinu með skilyrðum kom fram að eftirlitið hefði talið að gildistími þessa samnings væri of langur. Eftir viðræður eftirlitsins við Fjarskipti þá var ákveðið að stytta gildistímann. Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu mikið.