Skúli Magnússon, formaður Dómarafélagsins, segir það „mjög alvarlega ásökun“ að saka dómara um réttarmorð, eins og Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., og fyrrverandi dómari við Hæstaréttar, gerir í bók sinni, Með lognið í fangið.Þetta kom fram í viðtali Skúla við RÚV.
Í bókinni segir hann dómara við Hæstarétt hafa framið dómsmorð í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi.
Baldur var ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Baldur var þá ráðuneytisstjóri, eins og áður segir, og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Söluandvirði bréfanna, 192 milljónir króna, var einnig gert upptækt.
Forseti hæstaréttar, allir hæstaréttardómarar og margir héraðsdómarar eru vanhæfir til að dæma í máli Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni fyrrum hæstaréttardómara, eins og greint var frá í vikunni, þá hefur Benedikt stefnt Jóni Steinari fyrir meiðyrði vegna ásakana sem koma fram í bók hans.
Benedikt krefst þess að orðin verði dæmd ómerk og vill tvær milljónir króna í skaðabætur.
Skúli segir í viðtali við RÚV að vegna stöðu dómara í samfélaginu eigi þeir oft erfitt með að svara fyrir sig. „Við erum því býsna berskjölduð fyrir óvæginni gagnrýni og án þess að ég sé að tala um þetta mál sérstaklega þá er oft erfitt að setja undir röngum staðhæfingum og missögnum, yfirleitt gerum við það, þessi dómari hefur sem sagt ákveðið að gera það ekki og svara þessu með þessum hætti,“ sagði Skúli.