Kínverska hagkerfið fer fram úr því bandaríska, sem það stærsta í heimi, árið 2028 verði hagvöxtur með svipuðum hætti og hann er nú, það er að bandaríska hagkerfið vaxi um tvö prósent á ári en það kínverska um 6,5 prósent.
Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að forseti Kína Xi Jinping velja forðast viðskiptaleg átök (Trade War) við aðrar þjóðir, þar á meðal Bandaríkin, en að stefna hans til langs tíma sé sú að Kín verði alþjóðlegur leiðtogi í efnahagslífi heimsins árið 2050. Ekki aðeins með stærsta hagkerfið heldur einnig alþjóðlegur leiðtogi á öðrum sviðum, þar með talið umhverfismálum.
Sé mið tekið af stöðu mála eins og hún var í lok síðasta árs, þá telst hlutur Bandaríkjanna um 24,7 prósent af heildarhagkerfi heimsins en Kína tæplega 15 prósent. Þetta er að breytast hratt, eins og áður segir, og munar mest um gríðarlegan vöxt í Kína, Indlandi og nágrannaríkjum í Asíu.
Stórt skref var stigið í gær, þegar tilkynnt var um rýmri heimildir fyrir erlenda fjárfestingu í fjármálakerfinu í Kína.
Stjórnvöld í Kína hafa ákveðið að rýmka heimildir fyrir erlend fjármálafyrirtæki og eignastýringarfyrirtæki til að starfa í Kína og munu þau geta átt allt að 51 prósent hlut í kínverskum fyrirtækjum sem sinna þessari þjónustu.
Um stórt og mikið skref er að ræða í þá átt að markaðsvæða kínverskt fjármálakerfi og markaðinn í heild, en kínverska ríkið heldur um flesta þræða í kínverska hagkerfinu og hefur takmarkað mikið umsvif erlendra fyrirtækja í landinu.
Tilkynningin um þessa rýmkun virðist vera að koma mörgum á markaði á óvart, en samkvæmt umfjöllun Bloomberg er þetta álitið vera stórt skref í að styrkja viðskiptasamband Bandaríkjanna og Kína, þar sem bandarísk stórfyrirtæki, ekki síst bankar á Wall Street, hafa kvartað sáran undan því að geta ekki þjónustað viðskipti nema með takmörkuðu hætti, innan Kína.