Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, gengst við því að hafa beitt samdómara sína þrýstingi þegar mál Baldurs Guðlaugssonar var til umfjöllunar í Hæstarétti.
Jón Steinar var vanhæfur í málinu vegna vináttu við Baldur.
Í stefnu Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara á hendur Jóni Steinari eru þessi afskipti sögð brot á lögum um dómstóla.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld, en umfjöllun um þessi mál verður í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld.
Í stefnu Benedikts segir að á meðan mál Baldurs var til meðferðar í Hæstarétti; einkum frá því að málflutningi lauk og þar til dómur féll, hafi Jón Steinar ítrekað gert sér ferð inn á skrifstofur dómaranna í málinu þar sem hann „leitaðist við að hafa áhrif á hvernig þeir myndu dæma málið efnislega,“ að því er fram kom í frétt RÚV, og er það vitnað beint í stefnu Benedikts.
Jón Steinar fullyrðir í nýrri bók, Með lognið í fangið, að Hæstiréttur hafi framið dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, en hann var dæmdur fyrir innherjasvik í tengslum við sölu hans á hlutabréfum í Landsbankanum.
Hæstiréttur staðfesti tveggja ára fangelsisdóm yfir Baldri vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi. Einn hæstaréttardómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði séráliti og vildi láta vísa málinu frá.
Baldur var ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Baldur var þá ráðuneytisstjóri, eins og áður segir, og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Söluandvirði bréfanna, 192 milljónir króna, var einnig gert upptækt.
Benedikt krefst þess að fimm ummæli í bókinni verði dæmd dauð og ómerk, að því er fram kemur í frétt RÚV, en þau snúa að fullyrðingum Jóns Steinars um að dómsmorð hafi verið framið. „Dómsmorð er... dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu,“ skrifar Jón Steinar í bók sinni og vísar þar til gamallar skilgreiningar á hugtakinu.