Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að sú ríkisstjórn sem er í pípunum, skipuð Vinstri grænum, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, eigi eftir að gera margt gott. „Hún mun ná fram málum sem við hefðum líka getað gert í hinni ríkisstjórninni, sem eru þessi brýnu verkefni sem lúta að félagslegum stöðugleika, byggja hér undir gott samfélag. Ég er því miður ekki bjartsýnn á að hún muni jafna lífskjör landsmanna.“
Þetta kemur fram í sjónvarpsþætti Kjarnans sem sýndur er klukkan 21 á Hringbraut í kvöld. Þar eru Logi og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, viðmælendur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans. Umræðuefnið er verðandi ríkisstjórn, þær stjórnarmyndunarviðræður sem strönduðu í byrjun síðustu viku og kjörtímabilið framundan.
Logi segir það bara annan hluta þess verkefnis sem Íslendingar standi frammi fyrir, að ráðast í stórtæka innviðafjárfestingu og sókn í málaflokkum sem setið hafi á hakanum. Hinn hlutinn sé að gera atlögu að því að eignarmenn geti komist hjá því að sýna samfélagslega ábyrgð, Hvernig hægt sé að taka hagsmuni flokks fram yfir hagsmuni fólksins og hvernig sé hægti að moka undir sína stuðningsmenn og frændur. Allt þetta tengir Logi við Sjálfstæðisflokkinn.
„Mér finnst hin seinni ár ýmislegt hafa einkennt þennan flokk sem er vont fyrir Íslenskt samfélag. Það er rekið spillingarmál hvert á fætur öðru. Leyndarhyggja, frændhygli og ýmislegt sem þarf að gera atlögu að í stjórnmálum.“
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu við Loga hér að ofan.