Skúli Gunnar Sigfússon, kenndur við Subway, hefur ásamt viðskiptafélögum sínum kært Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmann til héraðssaksóknara fyrir meintar ólögmætar þvinganir og rangar sakargiftir. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Tildrög kærunnar eru meintar hótanir og þvinganir Sveins Andra í störfum hans sem skiptastjóri félagsins EK1923.
Gengið hefur á ýmsu við slit EK 1923, sem áður hét Eggert Kristjánsson hf. heildverzlun. Þannig voru eignir í eigu Skúla Gunnars frystar samkvæmt ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar um, frá 19. júlí síðastliðnum.
Kyrrsetningin var gerð í fjórum fasteignum, á Selfossi, Seltjarnarnesi og tveimur í Ölfusi.
Það var Sveinn Andri Sveinsson sem gerði kröfu um kyrrsetningu eignanna í tengslum við vinnu fyrir slitabúið.
Í Fréttablaðinu í dag segir að með tölvupóstum sem kærendum bárust „á Þorláksmessukvöld 2016“ krafðist hann greiðslna upp á tugi milljóna inn á vörslureikning sinn frá tveimur félögum á vegum kærenda vegna riftanlegra gerninga milli félaganna tveggja og EK1923.
Tekið var fram að yrðu kröfurnar ekki greiddar fyrir árslok 2016 yrðu höfðuð riftunarmál á hendur félögunum og kærur sendar til héraðssaksóknara á hendur fyrirsvarsmönnum þeirra, fyrir fjársvik og skilasvik.
Þetta telja kærendur hafa verið ólögmæta þvingun og að það hafi vakað fyrir skiptastjóranum að fá „kærendur ofan af því að taka til varna í einkamáli um umdeildar riftunarkröfur, með því að hóta þeim kæru til héraðssaksóknara fyrir meint hegningarlagabrot“ að því er fram kemur í Fréttablaðinu.