Laugardagurinn 18. nóvember er árlegur Evrópudagur um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun í samræmi við ákvörðun Evrópuráðsins.
Á árunum 2012 til 2015 unnu innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið saman að vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum.
Sett var á fót vefsvæði þar sem eru aðgengilegar margvíslegar upplýsingar og fræðsluefni fyrir þá sem vinna með börnum eða koma að málefnum þeirra á einhvern hátt.
#endchildsexabuseday
Kynferðisleg misnotkun og ofbeldi gagnvart börnum getur átt sér stað á netinu, í gegnum síma, úti á götu eða í gegnum vefmyndavél heima eða í skólanum.
Gerandinn getur verið einhver sem barnið treystir eða ókunnugur og getur hann valdið varanlegum líkamlegum og andlegum skaða.
Þetta kemur fram á vefsíðu Evrópuráðsins en á henni er mælt með því að samfélagið í heild sinni sporni gegn ofbeldi af þessu tagi og að ekki eigi að forðast þessi vandamál. Átakið eða vitundarvakningin var fyrst sett fram á þessum degi árið 2015 og er tilgangurinn að opna á umræðuna og minna á Evrópuráðssamning sem gerður var árið 2007 til að koma í veg fyrir kynferðislega misneytingu á börnum.
Myllumerkið #endchildsexabuseday er notað til að vekja athygli á vitundarvakningunni.
Kynferðisleg misneyting skaðleg heilsu
Í Evrópuráðssamningnum um varnir gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum frá árinu 2007 segir að aðildarríki ráðsins líti svo á að sérhvert barn eigi rétt á vernd fjölskyldu sinnar, samfélags og ríkis sem það þarfnast vegna stöðu sinnar sem ólögráða barn.
Jafnframt er bent á að kynferðisleg misneyting á börnum, einkum barnaklám og barnavændi, og kynferðisleg misnotkun á börnum í öllum myndum, þar með talin brot sem eru framin erlendis, séu skaðleg heilsu barna og sálrænum og félagslegum þroska þeirra.
Þörf á alþjóðlegri samvinnu
Enn fremur segir í samningnum að kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum hafi aukist uggvænlega, bæði innan hvers lands og á alþjóðavísu, einkum að því er varðar aukna notkun bæði barna og brotamanna á upplýsinga- og fjarskiptatækni.
Til að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum sé þörf á alþjóðlegri samvinnu og á að líta til þess að velferð og hagsmunir barna séu grundvallargildi, sem eru sameiginleg öllum aðildarríkjunum, og að þau verði að efla án nokkurrar mismununar.